„Það er ekki til nein uppskrift að draumavinnustaðnum, en það sem oftast er nefnt til að gera vinnustaði eftirsóknarverða er skýr og góður tilgangur, fallegt og heimilislegt starfsumhverfi, tækifæri til að læra og þróast, heilbrigð vinnustaðamenning, góð og styðjandi stjórnun, stuðningur við umhverfismál, fjölbreytileiki í viðhorfum og samsetningu vinnuafls, og sveigjanleiki í hvar og hvenær er unnið. Það er einföld uppskrift, ekki satt?“ segir ráðgjafinn Herdís Pála Pálsdóttir glettin; innt eftir því hvað geri vinnustaði eftirsóknarverða.

Herdís Pála ólst upp í stórum systkinahópi, lengst af á Ólafsfirði en líka hér og þar um landið. Hún er gift Jóni Ágústi Sigurðssyni, sérfræðingi í Seðlabankanum, og til samans eiga þau þrjá syni, eitt barnabarn og annað á leiðinni.

„Ég er metnaðarfull fjölskyldumanneskja sem sveiflast á milli þess að njóta þess að lifa í núinu með mínum nánustu og reyna að lesa í framtíðina og það sem er á sjóndeildarhringnum í mínum fræðum. Ég elska að lesa og pæla í ýmsum hlutum, sérstaklega framtíðinni, vinnu, vinnustöðum, vinnuumhverfi, vinnuafli og vinnumarkaði.“

Fannst hún hafa unnið í happadrætti

Herdís Pála heillaðist af mannauðsmálum á unglingsaldri og við val á námi dróst hún að tölum, viðskiptum og rekstri, en líka fólki, mannlegri hegðun, samskiptum og velsæld.

„Árið 1997 fann ég svo áhugavert MBA-nám í Bandaríkjunum, með áherslu á mannauðsstjórnun. Mér fannst ég næstum hafa unnið í happadrætti; ég hafði fundið nám sem sameinaði helstu áhugasvið mín,“ segir Herdís Pála sem síðan hefur bætt við sig ýmsu styttra námi og sótt mikinn fjölda ráðstefna og námskeiða á sviði mannauðsmála, nýsköpunar, tækni og fleira, til að viðhalda atvinnuhæfni sinni sem best.

„Annars er skrýtið að hugsa til þess núna að þegar ég fór vestur um haf til náms, árið 1998, var ekki byrjað að kenna MBA-nám á Íslandi, en nú hafa þúsundir einstaklinga útskrifast með slíka prófgráðu úr íslenskum háskólum. Eins höfðu fáir lokið meistaranámi í mannauðsstjórnun þá; fleiri höfðu farið í meistaranám í vinnusálfræði eða vinnumarkaðsfræði, sem er auðvitað ekki alveg það sama, en í dag hafa mjög margir lokið meistaranámi í mannauðsstjórnun.“

Skemmtileg partí af og til

Þegar kemur að mannauði segir Herdís mestu verðmætin felast í hugarfari starfsfólksins.

„Sé hugarfarið gott er lítið mál að kenna fólki og þjálfa það til að ná frábærri frammistöðu. Verðmætin felast líka í viljanum til að læra og þróast, aðlagast, vinna vel með öðrum, finna lausnir, fagna þróun og breytingum; þessu vaxtar- og gróskuhugarfari sem mikið er talað um í dag. Að sama skapi nær starfsmaður sem kann eða veit mjög mikið seint góðri frammistöðu ef hugarfarið er neikvætt, sjálfmiðað eða íhaldssamt,“ segir Herdís Pála.

Spurð hvort enn skorti upp á að íslensk fyrirtæki átti sig á mikilvægi þess að gera vel við starfsfólk sitt, spyr hún á móti:

„Ja, hvað felst í því að gera vel við starfsfólkið? Jú, þar skiptir máli að hafa fallegt vinnuumhverfi og skemmtileg partí af og til, en heilbrigð vinnustaðamenning, hvetjandi og leiðbeinandi endurgjöf og stjórnun, umbun og viðurkenning fyrir vel unnin störf eru líka stór hluti af því að gera vel við starfsfólkið og getur hjálpað mjög vel við að laða að og halda í gott vinnuafl.“

Stóra uppsögnin efst á lista

Herdís segir sambland margra þátta hafa orðið til þess að augu atvinnurekenda opnuðust fyrir því að mannauður fyrirtækja skipti miklu máli.

„Þegar störf þar sem hugvit, nýsköpun, þjónusta, upplifun og mannleg samskipti voru orðin helsta söluvaran, eða það sem helst gat skapað samkeppnisforskot, þá var augljóst að virði mannauðsins var mikið og mun meira en húsnæðis, véla eða annars búnaðar,“ greinir Herdís frá.

Hún segir stóru uppsögnina (e. great resignation) vera efsta á baugi í mannauðsmálum nú, sem sumir vilja kalla stóru enduruppstokkunina (e. great reshuffle).

„Það er allavega mikið flot og breytingar á vinnumarkaði nú, sem breytt hefur valdahlutföllum á vinnumarkaði og leitt af sér ýmsar nýjar áskoranir. Einnig glíma margir vinnustaðir við skort á vinnuafli og í dag segja 40 prósent stjórnenda í 400 stærstu fyrirtækjum Íslands að þeir sjái fram á skort á vinnuafli. Það gerist meðal annars vegna fólksfækkunar, aukins hæfnigaps, breyttra hugmynda fólks um það hvernig það vill vinna, og einnig mögulega ákveðinnar þröngsýni vinnuveitenda þegar kemur að því að meta hæfni og getu vinnuaflsins.“

Herdís Pála segir orðið eilífðarstúdent hafa á árum áður haft frekar neikvæða merkingu en nú hafi tímarnir breyst og að allir þurfi að vera eilífðarstúdentar. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI

Mannauðsmál skila arðsemi

Íslendingar standa mjög framarlega á sviði mannauðsmála.

„Já, klárlega. Það er mikið til af mjög öflugu mannauðsfólki á Íslandi í dag, og í Mannauði, félagi mannauðsfólks á Íslandi, eru nú yfir 500 manns,“ segir Herdís Pála, sem var formaður númer tvö í félaginu og hefur tekið virkan þátt í uppbyggingu þess.

„Ég stend fast á bak við meginhlutverk þess sem er að efla fagmennsku í mannauðsstjórnun í þágu íslensks atvinnulífs. Mannauðsfólk er heilt yfir duglegt að lesa, fylgjast með nýjungum og nýjum rannsóknum, og er meðvitað um áhrifin sem það getur haft til að bæta ekki bara við rekstur og árangur síns vinnustaðar, heldur í þágu atvinnulífsins alls,“ segir Herdís Pála.

Sjálf hefur Herdís unnið sem ráðgjafi í stjórnun fjölmargra fyrirtækja, en á hvað skyldi hún vilja mest hafa áhrif í mannauðsmálum?

„Það er ansi margt, en kannski helst tvennt; að stjórnun mannauðs sé yfir höfuð betur sinnt af almennum stjórnendum, og hitt, að betur sé hugað að vinnustaðamenningu, sem auðvitað getur þýtt ótal margt og skal ég nefna hér dæmi. Flest íslensk fyrirtæki eru lítil og stjórnendur verja mestum tíma í dagleg sérfræðiverkefni á meðan stjórnun mannauðs er sinnt þegar tími gefst til, sem er sjaldan, eða þegar eitthvað brennur. Hver einasta klukkustund sem stjórnendur nota til að huga að mannauðinum, veita honum hvetjandi og uppbyggjandi endurgjöf, sýna áhuga, veita góðum árangri athygli, og svo framvegis, er tími sem skila mun arðsemi. Arðsemin getur svo birst í bættri frammistöðu, aukinni ánægju viðskiptavina, minni starfmannaveltu og svo framvegis,“ upplýsir Herdís og það er fleira sem hún vill hafa áhrif á.

„Hvað varðar vinnustaðamenningu mætti oftar en ekki vinna hana skipulegar og meira stefnumiðað; að skoða hvaða hegðun er veitt athygli, hvaða hegðun er umbunað fyrir, er stuðningur við fjölbreytni í mannskap og hugmyndum, og svo framvegis. Þau áhrif sem ég vil hafa er að við sinnum stjórnun yfir höfuð betur, finnum leiðir til að láta árangur og velsæld vinnustaða og einstaklinga sem starfa fyrir vinnustaðinn fara saman. Að við fylgjumst með nýjustu rannsóknum, notum framtíðarlæsi til að lesa í trend og hvernig þau geta haft áhrif á vinnustaðina okkar. Einnig hvaða áhrif aukið langlífi og bætt heilsa þjóðarinnar hefur á vinnustaðinn, vinnuaflið og viðskiptavini, svo ekki sé minnst á aukna fjölmenningu og öll tækifærin sem felast í tækniþróuninni.“

Reynslutími fyrir báða aðila

Mikil breyting hefur orðið á því að vera starfsmaður hjá íslenskum fyrirtækjum frá því sem áður var.

„Fjölmörg fyrirtæki eru að átta sig á að gamla vinnumarkaðsmódelið og gömlu reglurnar í hefðbundnu ráðningarsambandi vinnuveitenda og launþega eru að breytast. Nýr starfsmaður notar reynslutímann á nýjum vinnustað til að leggja mat á yfirmann sinn, vinnustaðamenninguna, tækifærin til að læra og þróast, stuðning vinnuveitenda við sveigjanleika, fjölbreytni, umhverfismál og fleira. Það er ekki lengur bara vinnuveitandinn að meta hvort hann vilji fastráða nýja starfsmanninn eða ekki. Stjórnun þarf líka að breytast, nú þegar fjarvinna og verkefnavinna er orðin meiri. Þá duga ekki endilega stjórnunaraðferðir sem áður þóttu góðar,“ greinir Herdís Pála frá.

Hún segir helstu brotalöm í mannauðsmálum vera tímann.

„En líka að sinna mannauðsstjórnun betur heilt yfir, bæði af stjórnendum og miðlægum mannauðsdeildum, sem oft eru mjög undirmannaðar. Það er margt að breytast sem getur kallað á að fleiri starfi að mannauðsmálum hvers fyrirtækis. Má þar nefna persónuverndarlögin, jafnlaunavottun, aukna fjarvinnu og skipulag í kringum það, aukna samkeppni um fólk sem kallar á hraðara og betra ráðningarferli og svo mætti lengi telja.“

Hún nefnir að almennir stjórnendur og mannauðsfólk þurfi oft meira hugrekki til að fara nýjar leiðir í stjórnun; hvernig fólk er metið, hvernig á að laða það að og halda í það, varðandi vinnustaðamenningu og fleira; að sleppa gömlu íhaldsseminni eða draumunum um að allt verði eins og það áður var.

„Þegar kemur að framtíðarlæsi og auknu langlífi þurfa margir vinnustaðir og stjórnendur að endurskoða hugmyndir sínar um hvað sé eftirsóknarvert starfsfólk – að það séu ekki bara þeir sem eru undir fertugu eða fimmtugu. Þá á húðlitur, háralitur eða kynhneigð ekki heldur að skipta máli við mat á getu fólks. Fólk með skerta líkamlega getu fær heldur oft ekki næg tækifæri, til dæmis í störfum þar sem reynir fyrst og fremst á hugvit en ekki líkamlega burði. Við þurfum því að vera víðsýnni, umburðarlyndari og framsýnni.“

Ekki nóg að flagga háskólaprófi

Herdís Pála telur Íslendinga almennt ekki harða húsbændur en að landsmenn séu kröfuhart vinnuafl.

„Sem er hið besta mál – svo fremi sem við vinnum að sameiginlegum árangri og velsæld vinnuveitenda og vinnuafls,“ svarar Herdís og heldur áfram: „Íslenskt vinnuafl og vinnustaðir mættu huga betur að því að viðhalda atvinnuhæfni til framtíðar litið. Það er ekki nóg að flagga einhverra ára gömlum háskólagráðum eða að hafa einhvern tímann unnið á flottum vinnustöðum.“

Hún segir atvinnuhæfni til framtíðar skipta einstaklinga og vinnustaði miklu máli. Að við séum alltaf að viðhalda og auka atvinnuhæfni okkar miðað við verkefnin sem við höfum í dag og umhverfið sem við störfum í, en ekki síður þegar litið er til breyttra starfa og starfsumhverfis í framtíðinni.

„Eilífðarstúdent er orð sem hefur alltaf þótt frekar neikvætt en nú þurfum við öll að vera eilífðarstúdentar, eða stöðugt að lesa, læra og fylgjast með. Að styrkja okkur fyrir daginn í dag og búa okkur undir framtíðina og það sem hún felur í sér,“ segir Herdís Pála og hvetur alla einstaklinga til að fjárfesta í sjálfum sér og sinni þróun.

„Ekki bara að að sækja það sem vinnuveitendur senda fólk í, eða eru til í að greiða fyrir. Hver og einn verður að taka ábyrgð á eigin atvinnuhæfni, eiga sinn starfsferil og stýra honum, þótt vinnuveitendur þurfi líka að styðja vel við í þessum efnum.“

Herdís hvetur líka alla til að vera með góðan prófíl á Linkedin.

„Þar kemur maður sjálfum sér og sinni þekkingu, hæfni og styrkleikum á framfæri. Ég hef verið mjög virk á Linkedin frá árinu 2008 og það hefur leitt af sér alls kyns góð fagleg kynni og tengsl, boð um að tala á ráðstefnum erlendis og fleira,“ greinir Herdís Pála frá og hægt er að skoða prófílinn hennar á linkedin.com/in/herdispala.

Innihaldsríkara líf

Herdís Pála talar iðulega um „Self-leadership“ í sínum fræðum, en við hvað er átt?

„Í grunninn snýst „Self-leadership“ um sjálfsþekkingu. Að þekkja eigin persónulegu gildi, styrkleika, hvataþætti, hugarfar og venjur, og setja sér stefnu í vinnu og einkalífi. Að stunda gott „Self-leadership“ snýst líka um að bera ábyrgð á eigin framkomu, samskiptum, hegðun og þróun, ásamt því að styrkja getu sína til að hafa áhrif og aðlagast, og að vera það sem við viljum vera, í vinnu og einkalífi,“ útskýrir Herdís.

Hún segir marga taka þátt í að móta gildi og stefnu vinnustaða en aldrei hafa farið í slíka vinnu fyrir sjálfa sig.

„Margir eru ekki nógu meðvitaðir um eigin styrkleika eða hvernig má nýta þá sem best. Ég hef haldið þó nokkuð af fyrirlestrum og vinnustofum um „Self-leadership“ og fullyrði að það hefur gert fólk að betri starfskröftum en líka hjálpað því að lifa innihaldsríkara lífi.“

Völundarhús tækifæranna

Fyrsta grein Herdísar um mannauðsmál birtist í Viðskiptablaðinu árið 2000 og var um starfsþróun sem þá var hálfgert tískuhugtak.

„Síðan hef ég skrifað fjölda greina í ýmis blöð og tímarit, auk þess að blogga á heimasíðunni minni, herdispala.is,“ upplýsir Herdís.

Hún seldi sitt fyrsta netnámskeið árið 2012, en það var líka mikil nýjung á þeim tíma hér á landi. Þá hefur hún talað á fjölda ráðstefna hérlendis og erlendis.

„Ég tók einnig þátt í að skrifa bókina Völdunarhús tækifæranna með dr. Árelíu Eydísi Guðmundsdóttur árið 2021, og gerðum við meðal annars rannsókn hér á landi um breytingar á vinnumarkaði og í vinnuumhverfinu og notuðum niðurstöðurnar við skrifin.“ ■

Hvað gerir vinnustað góðan?

Herdís Pála nefnir þrjú atriði sem verða að vera á vinnustað svo starfsfólkinu líði vel:

  • Fólk þarf að upplifa að það tilheyri á vinnustaðnum.

Upplifa að það sé í öruggu umhverfi, njóti stuðnings, á það sé hlustað og það sé samþykkt og virt fyrir að vera það sem það er.

  • Fólk þarf að upplifa og fá stuðning við almenna velsæld.
    Upplifa að það sé stuðningur við líkamlega og andlega heilsu, að afköst og árangur séu meira metin en fjöldi unninna vinnustunda. Að tilfinningar og andleg líðan séu ekki tabú eða eitthvað sem þarf að skilja eftir heima.

  • Fólk vill upplifa og fá stuðning við sveigjanleika.

Það er ekki nóg að birta til dæmis fjarvinnustefnu eða segja að fólk megi stjórna sjálft hvar það vinnur hverju sinni en að fólk upplifi svo að það sé illa séð af yfirmönnum, eða komi niður á framgangi þeirra í starfi.