„Ég las bókina þegar hún var nýkomin út fyrir 25 árum síðan,“ segir Óskar Þór Axelsson leikstjóri Napóleónsskjalanna, nýrrar spennumyndar sem byggir á samnefndri metsölubók Arnaldar Indriðasonar. „Þá var ég með lítið fyrirtæki sem var að gera auglýsingar og var nýbyrjaður í bransanum. Ég hafði samband við útgefandann og spurði hvort að rétturinn væri laus. Svo líður allur þessi tími,“ segir Óskar í samtali við Bíóbæinn á Hringbraut.

Aðspurður hversu mikið Arnaldur hafi verið viðriðinn verkefnið, svarar leikstjórinn. „Þegar ég kem inn í þetta þá hafði hann lesið eitt draft að handritinu.“

Óskar segist strax í upphafi hafa heyrt í Arnaldi og borið undir hann breytingar á handritinu. „Rétt fyrir tökur hittumst við og fórum yfir stöðuna og svo þegar við vorum að klippa fékk hann að sjá klipp líka,“ segir hann.

Bókin kom út árið 1997 og síðan hefur samfélagið tekið miklum breytingum. Til að mynda er herstöðin, sem er í miðju sögunnar, ekki lengur starfrækt hér á landi.

„Herstöðin er stór partur af bókinni. Þá hugsa ég, er þetta períóda, eða á að færa þetta í nútímann, sem er það sem við gerðum og sú nálgun fannst mér lukkast mjög vel. Það tók tíma að finna þá leið sem hentaði fyrir þetta,“ segir Óskar.

Hann segir að eitt af efnistökum myndarinnar sem kallist á við nútímann sé bráðnun jökla. „Þetta snýst um flugvél sem finnst upp á jökli og í dag er hlýnun jarðar að valda því að jöklarnir eru að bráðna.“

Þið getið horft á klippu úr þættinum hér. Bíóbærinn er á dagskrá Hringbrautar miðvikudagskvöld klukkan 20.00.