Nú er loks komið að því að jarðvinnugeirinn fái sinn stað í menntakerfi landsins. Ég hef unnið við jarðvinnu í 32 ár og þegar ég er spurður við hvað ég starfa hef ég alltaf lent í vandræðum því starfið er mjög fjölbreytt líkt og hjá öðrum iðnaðarmönnum,“ segir Vilhjálmur Þór Matthíasson hjá Fagverk og Malbikstöðinni.

„Við erum risastór hluti af iðnaði landsins. Ekkert hús er byggt án þess að við leggjum grunninn og enginn vegur lagður fyrr en við komum að borðinu til að nefna einhver augljós dæmi.“

Vilhjálmur útskýrir að Félag vinnuvélaeigenda hafi lagt af stað í þá vegferð að koma á námi til að undirbúa fólk undir störf í faginu með það að leiðarljósi að auka þekkingu innan geirans og stuðla að nýliðun í greininni. Verkefnið fékk styrk úr Framfarasjóði Samtaka iðnaðarins (SI). Ráðinn var verkefnastjóri til að halda utan um verkefnið og stýrihópur stofnaður sem skipaður var fulltrúum frá félaginu, Tækniskólanum, SI og mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Samkomulag um stofnun námsbrautarinnar var undirritað af samstarfsaðilum í nóvember 2019.

„Á Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, heiður skilið fyrir að vinna málinu brautargengi og veita iðnmenntun verðskuldaða athygli. Kosið var um nafn á námið innan Félags vinnuvélaeigenda og varð nafnið jarðvirkjun fyrir valinu. Nú erum við því jarðvirkjar,“ segir Vilhjálmur.

Við jarðvinnu eru oft notuð dýr tæki og mikilvægt er að hafa þekkinguna til að nota þau. MYND/AÐSEND

Nýliðun í faginu hefur því miður ekki gengið sem skyldi að sögn Vilhjálms og segir hann að ýmsar ástæður gætu verið fyrir því.

„Ein þeirra er ímynd geirans og misskilningur um eðli starfsins. Starfið er oft á tíðum mjög tæknivætt og verkfærin sem við vinnum með kosta tugi milljóna. Mistök geta verið dýrkeypt og oft erfitt að leiðrétta þau. Því er mikilvægt að í greininni starfi fagaðilar sem vanda til verka. Mikilvægt er að lyfta greininni á hærra plan og fara að kenna undirstöðuatriðin áður en haldið er af stað út í verkin. Þar spilar námið lykilhlutverk og bindum við miklar vonir við að vel takist til,“ segir hann.

Nám í jarðvirkjun mætir sívaxandi kröfum

Rafn Magnús Jónsson, verkefnastjóri hjá Véltækniskólanum, segir að það gleðji hann mjög að vera kominn á þann stað að geta boðið upp á formlegt nám á framhaldsskólastigi í jarðvirkjun næsta haust.

„Við hjá Tækniskólanum viljum mæta sívaxandi kröfum um örugg vinnubrögð, aukin gæði, styttri framkvæmdatíma, minna rask og tækniþróun með fyrsta flokks menntun á þessu sviði,“ segir hann.

„Jarðvirkjun er nám sem undirbýr einstaklinga undir þau fjölbreyttu störf sem felast í jarðvegsvinnu af öllum toga, hvort sem það eru efnisflutningar, frágangsvinna eða grunnvinna við byggingarlóðir. Námið er skipulagt og unnið í góðu samstarfi við atvinnulífið og er bæði ætlað nýnemum á framhaldsskólastigi, en ekki síður þeim sem þegar starfa í greininni. Einnig mun námið nýtast sem grunnur að frekara námi á framhaldsskólastigi.“

Jarðvinnunámið er skipulagt þannig að það henti bæði óvönum og fólki sem hefur reynslu af jarðvinnu.

Lögð verður mikil áhersla á að bjóða þeim sem sækja námið upp á nota tækjabúnað af fullkomnustu gerð og gott svæði til verklegra æfinga að sögn Rafns.

„Við teljum það vera lykilinn að því að svara þeirri þörf sem vinnumarkaðurinn stendur frammi fyrir,“ segir hann.

Námið er skipulagt sem tveggja ára námsbraut á framhaldsskólastigi sem verður kennd á lotuformi. Með því er verið að brjóta námið niður í smáar námslotur þar sem hver lota inniheldur vel afmarkað námsefni. Hver lota getur verið í boði oftar en einu sinni yfir veturinn.

„Í þessu felst ákveðinn sveigjanleiki, sem gerir þeim sem þegar starfa í greininni auðvelt fyrir að taka ákveðnar lotur sem námskeið,“ segir Rafn og bætir við:

„Í náminu erum við að horfa til þess að nemendur öðlist yfirgripsmikla þekkingu á öllum helstu þáttum jarðvirkjunar þannig að þeir þekki vel til öryggismála á vinnusvæðum, merkinga vinnusvæða, flokkunar jarðefna, verklags og vinnu við jarðstrengi og lagnaefni, en þessu öllu fylgir svo yfirgripsmikil verkleg þjálfun.“