Ég er fædd og uppalin í sveit og hef starfað sem bóndi uns ég flutti á Hellu um áramótin. Með fram bústörfum hef ég unnið hin ýmsu hlutastörf og átti svo barn þegar ég var átján ára. Ég hafði ekki beint bestu möguleikana til að mennta mig og hún háði mér líka, gamla sagan um að hafa mig ekki strax út í það sem mig langaði að gera, og að hafa ekki trú á sjálfri mér,“ segir Brynja.

Fluga í höfuðið

Brynja á fimm börn, sem nú eru öll komin upp, en það yngsta er 17 ára og hið elsta er 34 ára. Þá á hún sex barnabörn og það sjötta er á leiðinni. „Ég fann loks tíma og þörf til þess að skrá mig á námskeið í heilun árið 2011. Áður hafði ég nýtt mér meðferðir í heilun og fleiru, sem hjálpuðu mér mikið að vinna úr mínum áföllum. En árið 2011 fékk ég einfaldlega þá flugu í höfuðið að byrja að læra þetta. Ég hafði lengi leitað leiða til bættrar heilsu og eins og flestir á ég mér mína áfallasögu, því fæst komumst við klakklaust í gegnum lífið. Spurningin er bara hvernig við vinnum í úr áföllunum. Þetta var mín leið.

Árið 2013 fór ég svo í nám í höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferðum, eða Cranio, hjá Erlu Ólafsdóttur í Upĺedger á Íslandi. Þar fann ég leið sem hjálpaði mér að vinna almennilega úr áföllum mínum og losa og leiðrétta stíflur og skekkjur í líkamanum. Þeim sama og er svo klár að heila sig. Þarna tók ég CST 1 og rúmu ári síðar CST 2. Þetta er einstakt nám sem kallar á mikla sjálfsvinnu og veitir magnaðar upplifanir. Þá er unnið með himnukerfi líkamans.

Á næstu árum tók ég svo SER 1 og SER 2 hjá Chas Perry. SER stendur fyrir sálræna vefvinnu og gengur út á sálræna vinnu og samtalstækni. Í apríl 2017 fór ég svo á lokanámskeið ADV 1, einnig hjá Chas Perry, en mitt mottó í dag er að læra svo lengi maður lifir. Ári síðar í febrúar fór ég svo til Azoreyja með hópi kvenna frá Íslandi í námskeið í Sjálfsumhyggju. Dvaldi ég þar í tíu daga og í dag bý ég enn að öllu sem þar átti sér stað. Þær Arnbjörg Kristín Konráðsdóttir jógakennari og Helga Arnarsdóttir, sem starfar sem jákvæður sálfræðingur, stóðu fyrir þessari einstöku ferð.

Á námsferli mínum hef ég fylgst að með traustri vinkonu minni, en mér hefur þótt það ómissandi að hafa einhvern með mér í ferlinu. Það er mjög mikil heimavinna í kringum námið og við unnum vel með hvorri annarri.“

Tengingin við jörðina

Haustið 2019 skellti Brynja sér í spennandi níu mánaða nám í Shamanisma hjá Sólveigu Katrínu Jónsdóttur. „Þetta er mjög öflug leið til þess að tengjast náttúrunni, móður jörð, líkama sínum og tilfinningum. Þetta er líka nám í visku og að fara inn í heilindin okkar, en í Shamanisma myndi ég segja að maður sé markvisst að styrkja sínar tengingar og finna innri frið og styrk í jafnvægi. Það fer fram mikil hugleiðsla sem ég hef nýtt mér og stunda daglega í leit minni að eigin leið og mínu hlutverki hér á jörð. Því þegar þú ert í tengingu við sjálfa þig þá nærðu betri tengingu við jörðina. Við mannfólkið erum stórkostlegar verur.“

Brynja hefur náð að vinna úr öllum sínum áföllum og nýtur þess að horfa á fegurð náttúrunnar, himininn og hafið í barnslegri gleði og kærleik.

Mokaði út áföllunum

„Ástæðan fyrir þessum námsferli mínum og vegferð er og hefur alltaf verið sú sama. Ég vil öðlast bætta heilsu, betra líf, hef löngun til að vaxa og þroskast og ná betri tengingu við sjálfa mig. Það er þessi þrá að verða betri útgáfa af sjálfri mér. Ég vil öðlast innri ró og styrk og í því finn ég jafnvægi. Við alla þessa sjálfsvinnu þá styrkist maður og trúir betur á sjálfan sig.

Í dag er ég búin að vinna úr mínum áföllum og þau eru ekki lengur með mér og íþyngja mér. Ég hef mokað þeim út, svo að segja, og þá hef ég búið til pláss í sjálfri mér fyrir allt hið góða sem lífið hefur upp á að bjóða. Í desember í fyrra opnaði ég stofu á Hellu þar sem ég tek á móti fólki í meðferðir. Það er frábært að vinna með fólki og þá sérstaklega börnum. Það er yndislegt að fá þau til mín, því þau kenna manni svo margt. Ég finn að ég hef þörf fyrir að miðla öllu því sem hefur gert mér svo gott og leyfa öðrum að njóta með mér.“

Nýtt tungl, ný tækifæri

Brynja segist ekki vera ein af þeim sem tengir við áramótaheit eða setur sér þau að staðaldri. „En ég var svo heppin að í fyrra var stödd stúlka á Hvolsvelli sem er jógakennari. Ég sótti tíma hjá henni og var með dagbókina mína. Þar sem við vorum að vinna í okkur komu til mín eins konar einkunnarorð sem ég hef sett mér síðan þá, en það eru orðin „sannleikur, kærleikur og heiðarleiki“ enda hefur leikurinn alltaf, í öllum sínum myndum, verið mér mikilvægur. Það er svo mikilvægt að leika sér og rækta barnið í sér. Þannig finnur maður hamingjuna, einfaldlega með því að gleðjast yfir litlu hlutunum eins og fegurðinni í hafinu, himninum og tunglinu, en núna þegar við ræðum saman er einmitt nýtt tungl.“

Hugur, líkami og sál

Undanfarið hefur Brynja sótt hóptíma hjá Andagift enda er hún hvergi nærri hætt að læra. „Þau sem þar kenna eru einstök. Núna er ég að byrja á Möntru máttar námskeiði hjá Láru Rúnars en hluti af því námskeiði er að opna rödd sína, því tjáningin er svo mikilvæg í þessu starfi og að miðla betur. Það er líka mjög mikilvægt fyrir mig að hitta fyrir fólk sem er eins þenkjandi og ég, því það gefur mér byr undir báða vængi. Til allrar lukku hefur orðið vitundarvakning frá því 2013 þegar námsferillinn var að hefjast. Fólk er miklu meira farið að hugsa um manneskjuna sem heild, þar sem allt tengist saman, hugur, líkami og sál.“