Númi Katrínar­son er nýjasti gesturinn í pod­casti Sölva Tryggva­sonar. Númi, sem er þraut­reyndur í­þrótta­maður og eig­andi líkams­ræktar­stöðvarinnar Grandi 101, þurfti að endur­skoða líf sitt fyrir nokkrum árið eftir að hafa hrunið and­lega og líkam­lega.

„Ég lenti á botninum. Hvort sem við köllum það bur­nout eða eitt­hvað annað, þá var hraðinn á mér búinn að vera allt of mikill. Ég var búinn að æfa tvisvar á dag nánast allt mitt líf og svo var ég að læra, eignast börn og að reka fyrir­tæki. Þetta var bara of mikið og ég náði engum tíma fyrir mig og var eigin­lega bara hættur að geta andað.“

„En það er kannski ekki nema von að maður fari í þessa átt miðað við skil­yrðingarnar. Manni hefur bara verið kennt að vera karl­maður, slá í borðið og drekka meira kaffi og halda á­fram og ég var alltaf bara þannig. En ég neyddist til að endur­skoða mjög margt í mínu lífi eftir þetta tíma­bil og þurfti að hægja all­veru­lega á mér,“ segir Númi.

Hann segist sjá það vel í störfum sínum hve stór hluti Ís­lendinga sé fastur í streitu­á­standi:

„Við gefum okkur fæst al­menni­legan tíma og rými til að hægja á okkur og spyrja okkur hvort við séum að gera það sem við viljum gera í lífinu og hvort við séum að fara í rétta átt. Það er svo mikil­vægt að jarð­tengja sig mjög reglu­lega, ná að hlusta á inn­sæið og gefa sér rými.

Svörin eru öll innra með okkur og líkaminn er „hea­l­ing machine“ ef við hlustum al­menni­lega á hvað hann er að reyna að segja okkur. En í nú­tímanum er á­reitið á okkur svo mikið og svo setjum við líkamann úr jafn­vægi með alls konar á­ráttu­kenndri hegðun varðandi mat og annað. Þá endar það bara með því að við erum ein­fald­lega hætt að leyfa líkamanum að vinna sína vinnu í friði,“ segir Númi.

Hann bætir við að við endum síðan yfir­leitt ekki á að taka heilsuna al­var­lega fyrr en hún gefur sig:

„Svo endum við flest á að átta okkur á því að við þurfum að koma okkur út í náttúruna, borða náttúru­legan mat og hægja á okkur. En því miður gerist það oft ekki fyrr en allt of seint.“

Númi hefur sterkar skoðanir á því hvernig við sem sam­fé­lag ölum upp börnin okkar. Hann vill meina að hluti af því sem við sem sam­fé­lag þurfum að skoða og taka til gagn­gerrar endur­skoðunar sé hvernig mennta­kerfið sé upp­byggt:

„Mér fannst æðis­legt að vera barn á Stokks­eyri og að fara í sveitina, en ég veit ekki hvað sumt af því sem ég gerði yrði kallað í dag. Mér fannst geggjað að vera til og fá að fara í sveit, keyra traktor 9-10 ára gamall og vera innan um annað full­orðið fólk en bara mömmu og pabba.

Ég er ekki að segja að allt hafi verið frá­bært, en við erum búin að setja börn í of mikinn bóm­ul að mínu mati. Það hefði auð­vitað margt mátt vera betra í mínu upp­eldi, en ég fékk að gera svo margt og taka á­byrgð snemma. Ég er ekki að dæma einn né neinn, en börn í dag mega ekki lengur vera börn. Það má ekki pissa úti eða hlaupa ber­fættur úti á túni eða klifra yfir girðingu. Þetta er orðið allt of fer­kantað og það má eigin­lega ekki einu sinni hafa skoðun lengur,“ segir Númi.

Hann tekur dæmi af syni sínum:

„Elsti sonur minn kom til mín um daginn og sagði við mig: ,,Pabbi, það er svaka­lega leiðin­legt í skólanum,” og ég bað hann um að út­skýra betur fyrir mér af hverju.
„Ég má ekki hreyfa mig, ég á að sitja kjurr á sama stað, ég má bara horfa á einn stað og ég má ekki segja neitt.” Það er búið að taka af honum hreyfinguna og tjáninguna og hann á að horfa á sama staðinn lang­tímum saman.

Svo leysum við það þegar börnin eru komin í tóm vand­ræði með því að gefa þeim pillur við kvíða og at­hyglis­bresti. Ég er ekki að segja að ég sé með ein­hverja ein­falda lausn á að breyta mennta­kerfinu, en við hljótum að vera sam­mála um að það sé eitt­hvað mikið að og að það hljóti að vera hægt að breyta þessu ein­hvern vegin.“