Reykjavík Feminist Film Festival, sú fyrsta sinnar tegundar sem haldin er á Íslandi, hefst í Bíói Paradís í dag og á morgun byrja hinir árlegu Nordisk Film Fokus kvikmyndadagar í Norræna húsinu þar sem fókusinn verður allur á konur í kvikmyndum.

„Það er misjafnt hvað er tekið fyrir hverju sinni og í ár var ákveðið að einblína á konur í kvikmyndagerð,“ segir Fanney Karlsdóttir, verkefnastjóri hátíðarinnar í Norræna húsinu, þar sem sérvaldar, nýlegar, norrænar kvikmyndir eftir konur verða sýndar ókeypis á dagskrá sem nær ákveðnum hápunkti með skörun við RFFF.

Fanney segir tilviljun í raun hafa ráðið því að þessir tveir femínísku kvikmyndaviðburðir lendi á sömu dögunum. „Við vorum búnar að ákveða það á síðasta ári að setja fókus á konur í kvikmyndagerð í ár og svo fréttum við af Reykjavík Feminist Film Festival og ákváðum að vinna þetta saman og mælum líka eindregið með þeirra dagskrá sem verður að mestu leyti í Bíói Paradís.“

Stundin er runnin upp!

Verkefnastjórinn Fanney og Kristbjörg Kona, markaðsstjóri Norræna hússins, bera hitann og þungann af Nordisk Film Fokus en njóta góðs f rótgrónu samstarfi við sendiráð Norðurlandanna á Íslandi og sendiskrifstofur Færeyja og Grænlands.

„Þetta er unnið í mjög góðu samstarfi og þannig höfðum við til dæmis ekki hugmynd um Katrinu Joensen-Næs frá Færeyjum,“ segir Fanney um leikstýru myndarinnar Ábyrgð en heimsfrumsýning hennar markar upphaf NFF á föstudaginn klukkan 18.30.

„Hún er tvítug og hefur alist upp í færeysku leikhúsi þar sem hún hefur leikið og leikstýrt en þetta er hennar fyrsta kvikmynd. Hún ætlar að koma og það er óhætt að tala um heimsfrumsýningu þar sem Ábyrgð hefur aldrei verið sýnd áður,“ segir Fanney og bætir við að myndin komi hingað brakandi fersk þar sem Katrina hafi lokið gerð hennar fyrr í vikunni.

„Við ætlum svo að vera með tengslanetspartí eftir sýninguna,“ segir Fanney um gleðskap í boði Norræna hússins og norrænu sendiráðanna á Íslandi með aðkomu Reikjavík Feminist Film Festival. Þar munu meðal annars félögin WIFT á Íslandi og European Women’s Audiovisual Network kynna tengslanet sín og hvernig þau geta hjálpað konum að vinna saman, þvert á landamæri.

Fókuserað á sjálfsmyndir

Auk Katrinu fylgja Satu-Tuuli Karhu, sem leikur í finnsku myndinni Marian paratiisi, og Pipaluk Kreutzmann Jørgensen, sem leikstýrir Anori frá Grænlandi, myndum sínum á hátíðina og taka þátt í því sem Fanney telur óhætt að kalla hápunkt hátíðarinnar.

„Þá stjórnar Karólína Stefánsdóttir framleiðandi umræðum gestanna og tveggja íslenskra kvikmyndagerðarkvenna, sín á milli og við áheyrendur, um sjálfsmynd kvenna í myndum og kvikmyndageiranum.“

Fanney segir umræðunum einnig ætlað að varpa ljósi á umfjöllunarefni nokkurra þeirra mynda sem eru á dagskránni í Norræna húsinu og nefnir sérstaklega hina færeysku Ábyrgð og Agnes Joy sem báðar skoða mæðgnasambönd en Gagga Jónsdóttir, ein handritshöfunda og framleiðenda þeirrar síðarnefndu, er ásamt Ásu Hjörleifsdóttur, sem leikstýrði Svaninum eftir eigin handriti, fulltrúi Íslands í umræðunum.

Dagskrá Nordic Film Focus