Stefán er menntaður markaðsfræðingur frá Coastal Carolina University og hefur starfað mikið í markaðsmálum, félagsmálum og er að eigin sögn mikill íþróttaálfur. Guðný systir hans hefur unnið mikið í ferðabransanum í gegnum árin en samhliða því ávallt verið í góðgerðarmálum enda veit fátt skemmtilegra en að taka að sér ögrandi verkefni sem gefa af sér til samfélagsins á einn eða annan hátt. Hún stofnaði meðal annars „Á allra vörum“ með vinkonum sínum Elísabetu Sveinsdóttur og Gróu Ásgeirsdóttur.

Aðspurð segja systkinin verkefni vera mörg og áskorun fylgi hverju verkefni. „Verkefnin eru mjög fjölbreytt og gefandi. Fjáröflun og félagsstarfið er á okkar herðum og sérstaklega höfum við lagt mikla áherslu á félagsstarfið í samtökunum og þá ekki síst með unga fólkinu. Það er mikil þörf á því fyrir okkar fólk að koma saman eftir allar lokanirnar í heimsfaraldrinum,“ segir Stefán. Dagskráin framundan er stór og alls viðburðir í deiglunni. „Það eru mjög fjölbreytt verkefni framundan hjá okkur og mikið að gera. Má þar nefna tónleika með Bubba, vorhátíð, fjölskylduhátíð í Húsdýragarðinum, Edrúhátíð og fullt af öðru í pípunum. Það sem hefur komið okkur systkinum mest á óvart er að hvað okkur gengur vel að vinna saman. Stefán er tiltölulega byrjaður sem verkefnastjóri hjá SÁÁ og má segja að hann sé í fullu starfi við að taka á móti og melta allar þær hugmyndir sem fljóta upp hjá mér. En svo útfærum við þetta saman með öllu því góða fólki sem er að leggja samtökunum lið,“segir Guðný.

Sterk tengsl við SÁÁ

Hvernig vildi það til að þið systkinin eruð bæði að vinna hjá SÁÁ?Ég hætti að drekka fyrir 15 árum síðan og pabbi, Páll heitinn Stefánsson auglýsingastjóri á Vísi og DV, var einn af þeim fyrstu sem fór á Freeport á sínum tíma. Við fjölskyldan eigum SÁÁ og því starfi sem fer þar fram mikið að þakka,“ segir Stefán og bætir því við að hann vilji styðja við það góða starf sem unnið er hjá SÁÁ og leggja sitt af mörkum. „Við vitum og þekkjum hvað starfið sem á sér stað innan SÁA er mikilvægt og ef við getum hjálpað til við það og gefið af okkur og gert það árangursríkara og skemmtilegra þá er tilganginum náð,“ segir Guðný sem líður ávallt vel í eigin skini þegar hún sér að árangri er náð.

„Það eru oft tilviljanir sem gera það verkum hvernig hlutirnir þróast en við trúum því að þetta sé skrifað í skýin; að við systkinin séum hér saman að vinna í því sem okkur finnst skemmtilegt og gefandi. Einar Hermansson fyrrverandi formaður SÁÁ bauð Guðnýju hér í Efstaleiti í kaffi fyrir rúmum tveimur árum síðan og hún hefur ekki farið síðan,“ segir Stefán en Stefán var síðan ráðinn í mars síðastliðnum, enda veitir ekki af vönum höndum til að láta þetta umfangsmikla starf ganga smurt.“

Misstu pabba sinn 58 ára gamlan

„Við systkinin áttum góða æsku og ólumst um við mikið ástríki. En það voru nokkur ár sem voru erfið en eftir að pabbi hætti að drekka og kom heim frá Freeport sem nýr maður þá breyttist margt til hins betra. Töfraformúlan hans pabba í edrúmennskunni var að geta hjálpað öðrum og sem áttu erfitt. Hann fór margar ferðir með sjúklinga til á Freeport í Bandaríkjunum. Við misstum því miður pabba frá okkur 58 gamlan og það má eiginlega segja að við séum að stíga í hans spor í verkefnum okkar hjá SÁÁ. Það að eru 7 ár á milli okkar systkina og að vera bróðir Guðnýjar er nánast fullt starf enda tekur hún mikið pláss og vill oft passa bróður sinn um of,“ segir Stefán og brosir. „Það gerir alla að betri manneskjum að vinna að verkefnum fyrir SÁÁ. Þú snertir alla fleti í mannlegum samskiptum. Hér oft mikil gleði þegar vel tekst til en einnig tár á hvarmi þegar svo ber undir,“ segir Guðný og brosir sínu einlæga brosi.

Álfurinn.jpg

Álfasalan með 500 manna söluher

Álfurinn er löngu orðinn þjóðþekktur og fastur liður í fjáröflun SÁÁ. „Við elskum að hafa mikið í gangi og förum í mikið stuð þegar Álfasalan stendur yfir. Það fer heilmikil vinna í undirbúninginn, enda erum við með yfir 500 manna söluher um allt land. Það er mikil stemning sem myndast eftir því sem dregur nær söludögunum,“ segir Guðný.

Stefán tekur undir í sama streng. „Það er líka sérstaklega gaman og gefandi að vinna með Ung SÁÁ og sjá kraftinn í krökkunum sem hafa tekið á sínum málum og vilja njóta lífsins edrú. Við erum líka með góðan mentor okkur við hlið en það er Hilmar Kristensson sem hefur verið hryggjarstykkið í félags- og fjáröflunum hjá SÁÁ áratugi. Hilmar er mikill snillingur sem hægt að læra mikið af, enda sögumaður mikill,“ segir Stefán.

Fyrsti álfurinn kom árið 1990

Fyrsti álfurinn leit dagsins ljós árið 1990. „Grétar heitinn Bergmann vann hjá SÁÁ við fjáraflanir og var að spá í einhvers konar merkjasölu. Þá kom upp sú hugmynd að selja þessar litlu krúttlegu fígúrur og Grétar stakk upp á því að kalla þær álfa. Sjónarmið hans var að öllum þætti vænt um álfa og það var svo sannarlega rétt hjá honum. Fyrsta álfasalan var 1990 og þá var birkifræ í hatti álfsins og fólk hvatt til að sá því. Kaupið álf og sáið sjálf var slagorð Grétars. Blessuð sé minning hans,“ segir Stefán.

Nýr álfur kemur á hverju ári og ávallt jafn krúttlegur. „Val og hönnun á álfinum er samstarfsverkefni hér á skrifstofunni hjá SÁÁ og það myndast of skemmtilegar umræður þegar valið stendur yfir um hvernig næsti álfur á að líta út,“ segir Guðný. Systkinin segjast vera svo þakklát að fá að vinna saman að þessu stóra verkefni með öllu þessu frábæra fólki sem starfar hjá SÁÁ og þetta sé það sem gefi lífinu gildi.