Stefnumótasmáforritið vinsæla Tinder hefur bætt við eiginleika sem gerir notendum kleift að fela sig fyrir fólki sem það er með skráð sem tengiliði. Með eiginleikanum „Block contacts“ geta notendur því sleppt því að rekast á skyldmenni, fyrrverandi maka og vinnufélaga á forritinu.

„Við getum ekki bjargað þér frá vandræðalegum augnablikum á kaffihúsinu en við erum að gefa þér meira vald yfir notkun þinni á Tinder,“ segir í tilkynningu frá Tinder.

Notendur geta handvalið þá sem það vill alls ekki rekast á þegar þeir eru í stefnumótaleit, á það líka við um aðila sem eru ekki á forritinu. Eiginleikinn var prufukeyrður á mörkuðum á Indlandi, Kóreu og Japan, notendur þar voru að meðaltali með tólf aðila á lista sem það vildi ekki rekast á.

Samkvæmt skoðanakönnun meðal notenda hafa 40 prósent þeirra rekist á fyrrverandi maka, 24 prósent á fjölskyldumeðlim og 10 prósent rákust á kennarann sinn.