Jóhann er fæddur 1975 svo þetta hefur verið um 1980. „Ég man að ég notaði umslögin af spólunum sem kubba til að byggja úr. Fyrsta vínilplatan sem ég eignaðist var platan Dínamít, safnplata frá útgáfufyrirtækinu Spor með tónlistarfólki eins og Wham!, Billy Ocean og Culture Club. Þó að músíkin sé góð, hefur það hvernig ég hlusta á tónlist breyst mikið. Ég legg mikið upp úr gæðunum, og þessi plata er bara ekki vel gerð. Hún er fölsk og hljómar hrikalega,“ segir Jóhann og hlær. „En ég á þessa plötu enn þá.“

Tónlistaráhuginn byrjaði því af krafti í „eitís“ hjá Jóhanni. „Fyrsta platan sem ég keypti sjálfur var með Michael Jackson og ég vann mér fyrir henni í unglingavinnunni. Næsta var Iron Maiden. Þá var ég kominn yfir í þungarokkið og hlustaði mikið á það næstu áratugina.

Fyrir tveimur árum taldi ég plöturnar sem voru þá komnar upp í 1.600 stykki. Ég safna líka geisladiskum og á dágott safn af þeim. Ég hef keypt vínilplötur alla tíð; jafnvel þegar ég átti ekki plötuspilara, þá safnaði ég þeim samt. Það er eitthvað við það að eiga „hard copy“.“

Formið skiptir máli

„Fæðingarorlofið mitt 2009 fór í að setja geisladiskasafnið mitt inn í tölvuna. Svoleiðis hlustaði ég á tónlist í einhvern tíma. En fyrir um sex árum fékk ég plötuspilara í jólagjöf og byrjaði fyrir alvöru að safna vínilplötum, byggja upp græjurnar og láta mig varða um hljóminn. Þá fór ég að heyra alls konar í tónlistinni sem ég hafði ekki heyrt áður og upp úr því fer ég að fylgjast meira með íslenskri tónlist.

Mér finnst í dag ekkert gaman að eiga tónlist á símanum eða tölvunni eða streyma henni. Ég þarf þessa seremóníu, að velja plötu, taka hana úr umslaginu, þurrka af henni rykið og setja á fóninn. Þetta gefur manni tíma til að hægja á sér og hlusta á heila plötu. Ef mér líður eitthvað illa og langar að bæta skapið þá nota ég hiklaust tónlist. Hún hefur mikil andleg áhrif á mig. Stundum koma heimilismeðlimir að mér sitjandi í stofunni með tárin niður á kinnar og spyrja „hvað ertu að gera?“ og ég svara „æj, ég er bara að hlusta á Marillion,“ segir Jóhann og skellir upp úr. „Marillion er eighties prog-rock hljómsveit og uppáhaldsplatan mín með þeim er Misplaced Childhood, sem segir sögu frá upphafi til enda. Ég á hana áritaða af höfundinum og safna henni líka. Mest átti ég tíu eintök af henni á vínil en núna á ég átta.

Við eigum líka til allt safnið með Leonard Cohen. Svo blundar þungarokkarinn alltaf í mér og ég hlusta mikið á Black Sabbath, Iron Maiden, Metallica, Ghost, og svo er ég nýbyrjaður að hlusta á Rammstein svona á gamalsaldri. Þá sit ég heima í stofunni við hátalarana og hækka svo mikið í græjunum að maður finnur buxnaskálmarnar hristast.“

Vekur athygli á Instagram

Jóhann heldur úti vinsælum Instagram-reikningi þar sem hann deilir ljósmyndunar- og tónlistaráhugamálum sínum með rúmlega fjögur þúsund fylgjendum. „Þegar ég byrjaði að birta myndir af vínilsafninu mínu á samfélagsmiðlum komst ég að því að heimurinn fyrir vínil var að opnast og fólki fannst þetta flott. Ég sá svo að tónlistarfólkið var líka á Instagram, merkti það í myndunum og fékk góð viðbrögð frá þeim. Þá ákvað ég bara að gerast svo frakkur að hafa samband við þau og hæla þeim fyrir plöturnar. Þannig náði ég að kynnast þessu fólki og komst að því að þetta er auðvitað bara fólk eins og ég og þú. Stór hluti af fylgjendum mínum eru Íslendingar. En eftir að brasilískur áhrifavaldur tók viðtal við tónlistarkonuna og vinkonu mína, Unni Söru, heima hjá mér, varð mikil vakning á Instagraminu mínu í Brasilíu.

Það er gaman að segja frá því hvernig ég kynntist Unni Söru. Það byrjaði þannig að ég rakst á mynd af Gainsburg-plötunni hennar á Instagram. Ég hlustaði á plötuna á Spotify, leist vel á hana og setti þá athugasemd á myndina og segi: „Þessa verð ég að eignast.“ Upp úr því mælum við Unnur okkur mót. Svo var ég í nágrenninu einn miðvikudagsmorgun og datt í hug að athuga hvort hún væri heima og hvort ég mætti sækja plötuna til hennar. Hún jánkar því og ég kem þarna heim til hennar og hún var augljóslega nývöknuð. Í dag erum við bestu vinir og ræðum mikið allt á milli himins og jarðar. Í kjölfarið hef ég unnið með henni og fékk meðal annars að taka upp útgáfutónleikana hennar á nýju plötunni. Það var ótrúlegt að sjá hana syngja fyrir fullu húsi.

Einnig hef ég fengið tækifæri til að vinna með tónlistarkonunni og listmálaranum Sjönu Rut. Hún hefur gefið út tvær plötur með 34 lögum, og málar hún málverk við hvert lag. Þetta eru því 34 málverk. Ég hef þá séð um að taka ljósmyndir fyrir hana, fyrir bransann og af verkunum. Hún hefur líka leyft mér að gefa mitt álit á lögunum hennar þó svo ég sé ekki tónlistarmaður sjálfur og því finnst mér ég eiga pínulítið í henni.“

Frjó sena á Íslandi

Jóhann segir íslenska tónlistarsenu vera afar frjóa og að hún sé sérstaklega sterk kvennamegin. „Ég segi stundum í gríni að síðustu áratugir hafi verið áratugir stelpnanna í íslenskri tónlist. Þetta eru ekki bara flottar söngkonur og tónlistarkonur, heldur eigum við í þeim ótrúlega flotta höfunda. Þar er Ragga Gröndal einn af mínum uppáhaldstónlistarmönnum. Margir halda upp á hana fyrir lög eins og Ást, sem hún flytur eftir aðra höfunda. En hún er ekki bara frábær flytjandi heldur ótrúlega flottur höfundur. Áhuginn kviknaði þegar pabbi minn, skáldið, sagði mér að heima hjá þeim hjónum væri mikið hlustað á Röggu. Ég ákvað því að kynna mér málið. Þá kveikti ég almennilega á henni og uppgötvaði höfundinn Röggu. Ég hef aðeins náð að kynnast þeim hjónum og hljóðheimurinn sem þau Gummi hafa byggt upp er magnaður. Eins á ég allt safnið með Eivör og með nýju plötunni sé ég að hún stendur á hnífsegg. Hún er við það að detta yfir og verða súperstjarna og ég er mjög spenntur að sjá hvað verður.“