Myndin til hliðar sýnir gang stjarnanna í um klukkustund. Myndavélinni var stillt á þrífót með víðasta ljósopi með miklu ljósnæmi (F1.4, ISO 500, 8 sek., 24 mm). Alls eru teknar um 300 myndir og er linsunni beint að Pólstjörnunni sem er í skerpu. Þegar myndunum er skeytt saman birtast ljósrákir stjarnanna og virðast þær hringsnúast um Pólstjörnuna.

Stjörnuprýddur himinninn einn og sér getur verið ágætt myndefni en yfirleitt eru myndir áhrifaríkari með sterkum forgrunni. Í þessu tilfelli er það golfbíll við glompu. Aftur eru teknar myndir og nú er forgrunnurinn lýstur og hafður í skerpu en ljósnæmi minnkað um eitt stopp. Myndin öðlast meiri dýpt ef lýst er frá hliðum eða jafnvel að ofan með dróna í stað þess að lýsa frá sjónarhorni myndavélarinnar. Nota má ljós frá farsíma eða sérstök vasaljós þar sem stilla má hita og lit ljóssins eftir smekk. Gæta þarf vandlega að því yfirlýsa ekki og að myndavélin hreyfist ekki milli skota og er því ráðlegt að nota fjarstýringu eða seinkun á myndavélinni. Einnig þarf að gæta þess að taka yfir allar sjálfvirkar stillingar, t.d. sjálfvirka skerpu á linsunni (autofocus) og beina stjórn (manual) fyrir opnun, ljósnæmi og tíma. Einnig er mælt með því að slökkva á sjálfvirkri síu (noise reduction) en hreinsa má myndirnar síðar í myndvinnslu. Móða getur myndast framan á linsunni en koma má í veg fyrir það með því að nota hitaræmu sem er vafið um linsuna. Ekki er nauðsynlegt að stilla hvítuna (white balance) því hana má laga í myndvinnslu.

Hallgrímur Tómas Ragnarsson ljósmyndari.

Næturljósmyndun af þessu tagi krefst lítillar ljósmengunar og helst engrar tunglbirtu auk heiðskírs himins. Auðvelt er afla upplýsinga um gang tunglsins og víða má lesa spár um skýjafar og ljósmengun. Ljóstýra sem vart er sjáanleg með berum augum getur framkallað ljósmengun í lengri skotum sem þá birtist sem gul slæða. Festa má síu framan á linsuna sem dregur úr gula litnum, t.d. Neutral Night Filter frá Kase. Hætt er við að stjörnuhiminninn verði flatur og ekki sjáist munur á ljósstyrk skærustu og veikustu stjarnanna. Mælt er með Dream Star síunni frá Kase en með notkun hennar er hægt að greina helstu stjörnumerkin. Ský á næturhimni geta birst snögglega líkt og sjá má til hægri við golfbílinn á smærri myndinni en þau geta gert myndina áhugaverðari ellegar síðri. Næturljósmyndun krefst nokkurrar æfingar þar sem ekki sést á takkana en auðvelda má ferlið með því að forrita myndavélina fyrir myndefnið. Að lokum er öllum myndunum blandað saman í myndvinnslu eftir smekk. Á myndinni sjást rákir eftir flugvélar og gervitungl en afmá þær í myndvinnslu ef vill.

Myndirnar má sjá í fullri upplausn á frettabladid.is og ragnarsson.‌com