Tónlistarmaðurinn Aron Can gaf út lagið Aldrei heim í dag. Um útgáfuna sagði hann „lagið fjallar um mjög mikið sem er í gangi hjá mér. Líka tímabil sem er búið, fortíðina, eitthvað sem ég var að ganga í gegnum, en er ekki núna. Aldrei heim vísar í að þú ert kannski á einhverjum stað, og þig langar ekki heim, því þú gætir ekki verið hamingjusamari á þessu mómenti. Því langar þig ekki að fara neitt. Þig langar ekki að breyta neinu.“

Sagt var frá því í fréttum í byrjun febrúar að Aron hafi skrifað undir samning við eitt stærsta plötufyrirtæki heimsins, Sony Music. Aron hefur nærri einungis skrifað á íslensku, og segist ætla að halda því áfram, þrátt fyrir að líklegt sé að hann spili meira erlendis.

„Ekki til að byrja með, við ætlum alveg að halda okkur við íslenskuna. Maður sér alveg að það er að virka. Það er mikið af fólki úti sem dýrkar tónlistina og einmitt það að hún sé á íslensku. Ég held það fari alltaf að skipta minna máli. Fólk bara skilur, þótt það skilji ekki tungumálið.Það skilur tónlistina. Það veit hvaða tilfinning er í gangi þó það skilji ekki hvert einasta orð“

Aron býst við því að spila meira erlendis og segist vera spenntur fyrir því. Hann hafi mjög gaman af því að spila stór „gigg“. „Þannig fæ ég að halda mitt show. Það er miklu skemmtilegra að vera á stóru sviði, með visual-a“.

Aron segir stóran hluta af hans erlendu aðdáendum koma frá Norðurlöndunum og því megi ef til vill búast við því að lögð verði áhersla á að fara þangað, til að byrja með. Hann segir ekkert á döfinni hérna heima, en það geti alltaf breyst með litlum fyrirvara. 

Hægt er að hlusta á lagið hér að neðan.