„Ég fékk 9,37 í meðaleinkunn. Mér sóttist námið vel, þótt það hafi ekki alltaf verið auðvelt, en ég hef alltaf fengið góðar einkunnir án þess að svitna yfir því. Ég er líka haldin fullkomnunaráráttu, sem hefur örugglega spilað inn í útkomuna, og hef oft ekki sætt mig við annað en það besta frá sjálfri mér. Ég hef sennilega alltaf verið þannig án þess að hafa áttað mig á því fyrr,“ segir ísfirska mærin Rán.

Nám til stúdentsprófs hefur verið stytt úr fjórum árum í þrjú, en Rán tók það á þremur og hálfu ári.

„Mér finnst þessi stytting ekkert sérstaklega sniðug. Ég sé enga ástæðu til að flýta þessu mikla þroskaskeiði og mótunarárum ungs fólks; árum þegar maður kynnist nýju fólki og eignast vini til lífstíðar, tímum skemmtilegs félagslífs, upplifana og því að standa á eigin fótum og verða sjálfstæð manneskja í fyrsta sinn, jafnvel þótt ekki séu allir fluttir að heiman. Ef námstíminn er styttur um heilt ár þarf auðvitað líka að minnka námsefnið að sama skapi, en það hefur ekki verið gert. Nemendur eiga bara að hlaupa hraðar og læra undir meira álagi, í stað þess að njóta framhaldsskólaáranna á eðlilegum hraða og þess að vera til sem ungt fólk,“ segir Rán sem verður tvítug í ár.

Rán á útskriftardaginn, í upphlut sem þær amma hennar, Kristín Gísladóttir, saumuðu í sameiningu, og aldargamalli skyrtu og svuntu frá langalangömmu Ránar. MYND/AÐSEND

Lifað í sátt við vestfirsku fjöllin

Rán er ættuð frá Austfjörðum í föðurætt og Vestfjörðum í móðurætt.

„Fyrstu sex ár ævinnar bjó ég í Danmörku þar sem foreldrar mínir voru við nám. Ég á þaðan góðar minningar og náði góðum tökum á dönskunni. Eftir að til Íslands kom hefur fjölskyldan búið á Ísafirði og mér hefur þótt gott að búa fyrir vestan. Reyndar hefur mér alltaf þótt Austfirðirnir tilkomumeiri en Vestfirðirnir sem í dag þykja sérstæðari og meira spennandi, en það er líklega því ég kom þangað sjaldnar. Fyrir austan er maður ekki eins innikróaður af fjöllum en á Ísafirði umlykja þau fjörðinn og maður þarf að læra að taka þau í sátt. Það er í sjálfu sér ekki erfitt en til lengri tíma litið getur maður ekki búið fyrir vestan nema að taka fjöllin í sátt og getur upplifað sig innilokaðan, ekki síst yfir vetrartímann.“

Í Menntaskólanum á Ísafirði var Rán á opinni stúdentsbraut, en hennar sterkustu fög eru stærðfræði og náttúruvísindi.

„Ég ætlaði líka að taka áfanga í stálsmíði eða húsasmíði en þar hafði Covid áhrif auk þess sem ég átti fleiri vini í bókmenntahúsinu. Mér þykja þessar iðngreinar áhugaverðar og langar að læra meira til að kunna til verka og ef mér dytti í hug að byggja mér hús í framtíðinni. Það er gott veganesti út í lífið að geta bjargað sér við smíðar. Ég er alin upp við endalausar húsbyggingar, pabbi er arkitekt og hefur unnið mikið við smíðar og þau mamma og pabbi hafa mikið byggt, síðast sumarkofa sem pabbi teiknaði, en mamma er bæði handlagin og liðtæk við smíðarnar,“ segir Rán og ekki loku fyrir það skotið að læra smíðar síðar meir.

Rán með stoltum foreldrum sínum á úskriftardaginn, þeim Hörpu Lind Kristjánsdóttur og Kjartani Árnasyni. MYND/AÐSEND

Vill skoða kínverskar lækningar

Rán er nýflutt í höfuðstaðinn þar sem hún hefur hreiðrað um sig hjá ömmu sinni og afa.

„Ég ætla reyna mig við læknisfræði í háskólanum næsta vetur en hef heyrt að það sé þrautin þyngri að komast í gegnum inntökuprófin. Ég vil því nota vorönnina til að undirbúa mig sem mest því ég ætla mér að komast inn,“ segir Rán sem í dag byrjar á undirbúningsnámskeiði fyrir inntökuprófin sem fara fram í júní.

„Ég vil verða læknir vegna þess að mér þykir gaman að hjálpa fólki. Mér þykir líka áhugavert að skoða kínverska læknisfræði í samanburði við vestrænar lækningar. Ég vil skoða það allt dýpra, til dæmis tengingar við taugakerfið og hver ástæðan sé að þetta virkar. Því þótt austurlenskar lækningar virðist ekki alltaf rökréttar er staðreynd að þær virka vel fyrir marga, eins og til dæmis nálastungur. Þetta höfðar til mín því mamma kann nálastungur og þær hafa alltaf verið hluti af lífi mínu,“ segir Rán. Hún á ekki langt að sækja læknagenin því margir eru læknar í föðurfjölskyldunni.

„Ég ákvað reyndar ekki fyrr en síðasta vor að verða læknir. Það kom til mín þegar ég lagðist undir feld eftir sífelldar spurningar annarra um hvað ég ætlaði að gera í lífinu og eftir því sem ég hugsaði það betur fann ég að læknastarfið væri skemmtileg leið sem ætti vel við mig.“

Rán með móður sinni og ömmum. Amma Kristín, sú sem saumar svo fallega upphluti, er í rauða jakkanum. MYND/AÐSEND

Upphlutur með 100 ára svuntu

Rán er margt til lista lagt. Við útskrift frá Menntaskólanum á Ísafirði klæddist hún upphlut sem hún saumaði með hjálp ömmu sinnar, Kristínar Gísladóttur.

„Amma saumaði upphlut á allar sínar ömmustelpur og því á ég upphlut sem var orðinn of lítill þegar ég varð tólf ára. Ég var staðráðin í að sauma mér upphlut frá því ég frétti af þjóðbúningasaums-áfanganum í MÍ. Löngun mín jókst svo enn meir á þorrablóti grunnskólans þegar ég fékk lánaðan þjóðbúning hjá mágkonu mömmu, mér fannst hann svo sjarmerandi og tignarlegur,“ greinir Rán frá.

Það tók hana tvær annir að sauma á sig peysuföt og upphlut.

„Amma kann ekki að sauma peysuföt, svo ég saumaði pilsið, jakkann og allt sem þeim fylgdi í skólanum, en þegar að upphlutnum kom átti amma til vesti, sem kallast bolur, og ég get notað pilsið mitt við jakkann og bolinn. Síðar kom í leitirnar 100 ára skyrta og svunta af langalangömmu minni í föðurætt sem ég fékk að nota við upphlutinn og silfrið keypti ég sjálf í fyrra, en það saumaði amma á bolinn. Það er alveg sérstök tilfinning að klæðast upphlut, maður er ægilega fínn og veit að maður þarf að passa sig í honum; maður verður næstum ósnertanlegur í honum,“ segir Rán og hlær.

Hún hlakkar til framtíðarinnar.

„Það er gaman að vera komin í bæinn en þetta er náttúrlega allt annar heimur en á Ísafirði þar sem eru bara tvö kaffihús. Í Reykjavík er urmull kaffihúsa svo maður tali ekki um allar búðirnar, en það eru auðvitað viðbrigði að vera svo fjarri fjölskyldu og vinum fyrir vestan. En ég hef það notalegt hjá ömmu og afa, og vonandi þykir þeim líka gaman að hafa mig hjá sér. Ég er ánægð með lífið og tilveruna og hlakka til að takast á við inntökuprófin í sumar.“