Ragnheiður Sigurðardóttir Bjarnarson opnar sýningu sína Ljósbrot í Listasal Mosfellsbæjar í dag. Sýningin, sem er hluti af rannsóknarverkefni Ragnheiðar á hugtakinu „hægt“, samanstendur af verkum af ýmsum toga, þar á meðal málverkum, vídeóverkum, skúlptúrum og lágmyndum.

„Þessi sýning varð til upp úr dansverki sem ég gerði síðastliðið vor. Konseptið að dansverkinu var Hvítt og ég var svona að hugsa um hvernig ljós varpast frá hvítum fleti og hvernig ég gæti nýtt það í leikhúsi með því að nota leikhúsljós til að breyta sviðsmyndinni,“ segir Ragnheiður en dansverkið Hvítt var flutt á Reykjavík Dance Festival í júní 2021.

Ragnheiður er menntaður danshöfundur frá Listaháskóla Íslands auk þess sem hún er með meistarapróf í gjörningalist frá Gautaborgarháskóla. Hún hefur komið víða við í listinni og stofnaði einnig galleríið Midpunkt í Kópavogi ásamt manni sínum Snæbirni Brynjarssyni. Ragnheiður segir dansverkið hafa orðið kveikjuna að rannsóknarverkefninu sem hafi svo endað í sýningunni Ljósbroti.

„Það leiddi mig að því að ég er búin að vera að rannsaka eða taka fyrir í verkunum mínum konseptið hægt. Að reyna að hægja á öllu ferlinu sem við erum að díla við í okkar samfélagi og okkar nútíma í rauninni.“

Þannig að þú ert svolítið að skoða hvernig hægt er að hægja á sjálfum sér og samfélaginu?

„Já, ég held að við þurfum að byrja á okkur sjálfum. Ég er líka bara að skoða hvernig við getum sem listamenn hægt á ferlinu þannig að það þurfi ekki alltaf að vera svona hratt og svona sýningarmiðað. Það þurfi ekki alltaf að skapa eitthvað nýtt og búa til eitthvað annað heldur er hægt að endurnýta og leyfa hlutunum að flæða meira,“ segir Ragnheiður og bætir við að hún vilji líka virkja áhorfendur til að hægja á sér og gefa þeim rými til að njóta og dvelja í listinni.

Núvitund í listformi

Ragnheiður telur að fólk gæti lært margt af reynslu Covid-faraldursins þegar óumflýjanlega hægðist á öllu samfélaginu. Hún kveðst þó lengi hafa verið að vinna með þessar hugmyndir í listsköpun sinni.

„Ég held að það væri svo geðveikt ef við myndum ná sem samfélag að taka þetta ástand sem við erum í núna og leyfa því að lifa áfram. Ég myndi persónulega fíla það geðveikt mikið. En það er líka bara hvernig við Íslendingar erum, við erum mjög gjörn á að búa til rosa mikið mjög hratt og vera með mjög mikið af dóti til þess að skoða og sjá og vera í,“ segir hún.

Aðspurð hvort líkja mætti sýningunni við núvitund í listformi segir Ragnheiður:

„Já, ég myndi segja það. Þetta týpíska orð núvitund og að kjarna sig. Það væri mitt svona ídeal ef fólk myndi labba hérna inn og sjá: „Hérna er ró og friður og hérna fæ ég kannski smá breik til að melta hugmyndir dagsins.“ Og það er svo skemmtilegt af því þetta er inni á bókasafni þannig að maður er pínu í tengingu við hið huglæga.“

Listasalur Mosfellsbæjar liggur inn af bókasafninu en bókasöfn eru jú einn af fáum stöðum í okkar nútímasamfélagi sem tileinka sér enn hægt og hljótt andrúmsloft. Ragnheiður er síður en svo búin með rannsóknarverkefnið og útilokar ekki að fleiri verk muni bætast við síðar meir.

„Ég sé þetta fyrir mér sem langtíma rannsóknarverkefni sem maður er bara að upplifa í sinni sköpun. Þetta er geggjað upphaf, ég er búin með dansverkið og nú er ég komin með myndverkið,“ segir hún að lokum.