Listin er Rósu í blóð borin því hún hefur alltaf haft gaman af alls kyns föndri og að gera fínt í kringum sig. Meðal þess sem hún býr til eru kartöflustimplar sem hún notar síðan til að útbúa sinn eigin gjafapappír og gera hann persónulegan. Rósa segir einnig skemmtilegt að skreyta pakkana með ýmsum greinum eða lifandi blómum. „Það er hægt að gera jólapakkana mjög fallega án þess að kosta miklu til. Ég nota til dæmis Fréttablaðið sem gjafapappír og vel þá fallegar myndir og texta úr blaðinu. Um að gera að nýta blöð og tímarit til að pakka inn. Síðan er hægt að tína köngla eða þurrka appelsínur sem skraut ásamt fallegum borðum, bara nota hugmyndaflugið.“

Glæsilegir pakkar sem Rósa Björg útbjó til að gefa lesendum hugmyndir.

Rósa segist ekki vera neitt sérstaklega mikið jólabarn og sé hrifnust af náttúrulegum litum. „Ég er hrifin af greni og könglum ásamt því sem finna má í náttúrunni. Glimmer og glys höfðar ekki til mín á sama hátt,“ segir hún. „Hjá mér eru jólin til að njóta án streitu. Ég geri ekkert af skyldurækni heldur frekar ef ég er í stuði til þess,“ segir Rósa og bætir við að hún búist við að það verði mikið að gera í blómabúðinni fyrir jólin. „Verslunin var opnuð í Suðurveri í september og við erum að undirbúa skreytingar fyrir jólin. Aðventan verður skemmtileg í búðinni með aðventukrönsum og skreytingum fyrir leiði ástvina.“

Síða úr Fréttablaðinu sem fékk nýtt hlutverk. Ekki er verra þegar lifandi blóm fær að vera með.
Síða úr Fréttablaðinu hefur hér fengið nýtt hlutverk sem gjafaumbúðir. Teikningin hans Halldórs skreytir pakkann.
Pakkarnir eru hver öðrum glæsilegri.
Rósa notar brúnan umbúðapappír og stimplar á hann með kartöflustimplum til að gera hann persónulegan.
Þurrkaðar appelsínur, könglar og dagblaðapappír.
Pappírinn sem Rósa býr til er mjög fjölbreyttur og skemmtilegur.
Kartöflustimplar sem Rósa vinnur með.