Sigrún Hjálmtýsdóttir, þekktust sem Diddú eins og alþjóð veit, var komin í skjól þegar blaðamaður náði á hana í gær.

Haldnir í 22 ár

„Ég er komin í Mosfellsdalinn. Veðrið er að ýfast. Maður er bara að fara að bræða í súkkulaði og hafa það notalegt, koma sér í jólastemninguna. Kannski fínt að fá smá svona óveður til að eiga jólalega stund heima, maður slær kannski í tvær sortir,“ segir Diddú.

Síðustu 22 ár hefur Diddú haldið jólatónleika með eilítið heimilislegri brag en gengur og gerist í þeim málum. Hún hefur ásamt blásturssveitinni Drengjunum staðið fyrir tónleikum í Mosfellskirkju. Í ár verður engin undantekning.

„Þetta er núna næsta föstudag, það verður vonandi búið að lægja,“ segir hún hlæjandi og heldur svo áfram: „Við erum svo bjartsýn að við ætlum að halda tónleikana föstudaginn þrettánda. Við erum ekki þjökuð af neinni hjátrú. Svo höfum við verið að þessu núna í tvo áratugi, við byrjuðum árið 1997.“

Eins og Mjallhvít

Drengirnir eru blásturshljóðfæraleikarar úr Sinfóníuhljómsveit Íslands.

„Sex strákar, næstum eins og Mjallhvít og dvergarnir sjö. Nema við erum bara Diddú og drengirnir sex,“ segir hún og hlær.

„En þetta hefur gengið alveg ofboðslega yndislega hjá okkur. Við höfum ferðast víða um heiminn saman. Til Frakklands, Ítalíu, Kanada, Englands og fleiri staða. Núna síðast vorum við með tónleika í Hollandi. Við erum mjög víðförul, en alltaf svo trú og trygg í því að halda þessa jólatónleika. Í rauninni er það svona okkar fasti punktur árlega,“ segir Diddú.

Heimilislegri jólatónleikar

Hún segir þau ekki stefna á að breyta neitt út af vananum heldur sé ætlunin að halda þeirra hefðbundnu jólatónleika að vanda.

„Við erum bara hérna í kósíheitunum í Mosfellsdalnum, sáum enga ástæðu til að færa út kvíarnar. Þetta er kannski smá mótsvar við öllu hinu, það getur allt verið svo stórt og mikið á svona tónleikum. Ég er nú sjálf búin að taka þátt í mörgum þannig. Þetta er meira fyrir þá sem vilja komast í jólastemninguna á smá jarðtengdari og heimilislegri jólatónleikum. Við erum að ná þessari fallegu jólajarðtengingu, þessari einlægu jólastemningu,“ segir hún.

Hátíðleg stemning

Hún segist hafa fundið að fólk kunni vel að meta hátíðlega og lágstemmda tónleika sem þessa í fallegri kirkju.

„Svo syngur fólkið alltaf með okkur í einhverjum lögum, fær útrás og aðeins að blása í lungun. Það er svo að sjálfsögðu alltaf endað á Ó, helga nótt. Það er fastur dagskrárliður. Við höfum verið með allra þjóða jólalög líka, mjög blandað, spilum mest hátíðlegu lögin. Það eru allir alveg hjartanlega velkomnir, miðarnir eru seldir við innganginn. Þetta er það sveitalegt,“ segir hún og hlær.

Vilji fólk komast í notalegt jólaskap með Diddú og drengjunum þá fara tónleikarnir fram í Mosfellkirkju í Mosfellsdal næsta föstudag. Þeir hefjast klukkan 20.00 og eru miðar seldir við innganginn.