Sífellt fleiri gera sér grein fyrir því hversu mikilvægt er að flokka sorp og skila í endurvinnslu öllu því sem hægt er að endurvinna. Á flestum heimilum fellur þó til ýmislegt sem hægt er að endurnýta heima fyrir og gefa um leið nýtt líf.

Glerkrukkur eru eitt af því sem til fellur á mörgum heimilum en þær má endurnýta fyrir eitt og annað. Glerkrukkur má t.d. nota undir matvæli en þær henta sérstaklega vel fyrir alls konar fræ, hnetur, kókosflögur, krydd og rúsínur svo eitthvað sé nefnt. Tilvalið er að nota glerkrukkur fyrir sultur, svo sem rabarbara- eða bláberjasultu, en þá er mikilvægt að hreinsa krukkurnar vel, t.d. með því að sjóða þær. Sultur eru sívinsælar til gjafa en aðeins þarf að setja smekklegt efni á lokið og útbúa fallegan merkimiða og þá er komin skemmtileg gjöf. Þá er hægt að nota glerkrukkur fyrir blóm til að punta upp á heimilið. Glerkrukkur geta komið vel út sem tannburstaglös, undir penna, fyrir tölur eða tvinna eða í raun hvað sem er. Ef engin not finnast fyrir gamlar glerkrukkur er best að fara með þær í endurvinnslu og setja þær í gáminn fyrir steinefni.

Á flestum heimilum fellur til ýmislegt sem hægt er að endurnýta heima fyrir.

Handklæði verða tuskur

Þegar handklæði eru orðin gömul og slitin er hægt að gefa þeim nýtt hlutverk með því að klippa þau niður í þvottapoka eða tuskur. Sængurver sem hafa sungið sitt síðasta geta nýst sem pokar undir t.d. flöskur og dósir. Þau er síðan hægt að þvo og nota aftur og aftur.

Föt sem eru aldrei notuð eða passa ekki lengur má gjarnan gefa áfram svo þau nýtist öðrum. Ef það er ekki hægt, eða ef fötin eru einfaldlega orðin of slitin má sauma nýjar flíkur eða annað upp úr þeim. Gamlar gallabuxur geta t.d. orðið að smart gallatösku. Sniðugt er að rekja upp prjónafatnað og nota garnið á ný, svo sem fyrir nýja vettlinga eða trefla. Ef ekkert hlutverk finnst fyrir fatnað er æskilegt að fara með hann í safngáma hjálparsamtaka. Fötin eru þá flokkuð af sjálfboðaliðum og gefin til þeirra sem þurfa á þeim að halda, hérlendis sem erlendis. Hluti fatnaðar er seldur til fataflokkunarstöðva í útlöndum eða í verslunum t.d. Rauða krossins eða Hjálpræðishersins. Öll föt og klæði þurfa að vera hrein þegar þau eru sett í fatagámana en engu máli skiptir þótt þau séu rifin eða slitin, þá eru þau einfaldlega nýtt í endurvinnslu og búin til úr þeim teppi og ýmislegt annað.

Sparið plastið með því að taka með ykkur poka út í búð.

Gjafapoka má nota oftar en einu sinni, líkt og gjafapappír. Gjafakort má líka nota aftur með því t.d. að klippa út framhliðina á þeim, líma á þykkan pappír og þá er komið nýtt kort. Mikilvægt er að flokka pappír sem ekki nýtist og setja í endurvinnslu. Hægt er að framleiða t.d. salernispappír, eldhúspappír, dagblaðapappír og fleira úr endurunnum pappír.