Árið 1987 hóf Stöð 2 sýningar á Disney-teiknimyndunum Sögur úr Andabæ við miklar vinsældir. RÚV er byrjað að sýna nýja þætti úr Andabæ og Sindri Bergmann Þórarinsson, KrakkaRÚV-stjóri, segir móttökurnar hafa verið ákaflega góðar. Ekki síst frá foreldrum markhópsins sem einmitt sátu margir hverjir hugfangnir yfir ævintýrum Jóakims aðalandar, Rip, Rap og Rup og annars fiðurfénaðar úr smiðju Disneys.

„Það er klárt mál að það fylgir þessu mikil nostalgía hjá foreldrum þannig að þetta er ekki síst fyrir þá,“ segir Sindri, sem sjálfur á ljúfar bernskuminningar frá löngu liðnum Andabæjarárum.

Hann segist ekki síður ánægður með nýju þættina. „Þetta er bara svo vel skrifað og vandað þannig að ég er strax orðinn spenntur fyrir næsta þætti.“ Teiknistíllinn hefur breyst nokkuð en fjörið er hið sama og Sindri segist halda að enginn verði svikinn af nýju Andabæjarþáttunum.

Salka Sól tekur nostalgíusnúning

Guðmundur Ólafsson leikari söng hið vinsæla titillag þáttanna á sínum tíma en eftir nokkrar vangaveltur segir Sindri að ákvörðun hafi verið tekin um að gera nýja útgáfu af laginu og fá söngkonuna Sölku Sól til þess að syngja það eins og henni einni er lagið.

„Hún var alveg til í þetta og mér sýnist hún nú vera manna spenntust að deila þessu á samfélagsmiðlum,“ segir Sindri og það má til sanns vegar færa þar sem Salka fylgdi myndbandinu með laginu á Facebook með þessum orðum. „Það fer um mig nostalgíu hrollur! Eða meira svona fiðringur!“

Andrés önd er loksins mættur til leiks

Sjálfsagt er ekki á nokkra önd í bænum hallað þótt fullyrt sé að Andrés sé þeirra vinsælastur. Þessi geðstirði og seinheppni andarsteggur hefur heillað kynslóðir barna og fullorðinna en var einhverra hluta vegna látinn sitja hjá í Sögum úr Andabæ á síðustu öld. Nú er hann góðu heilli mættur til leiks og hefur að vonum verið tekið fagnandi.

„Hreiðar Ingi Þorsteinsson kórstjóri talar fyrir Andrés. Hann hefur gert það áður og er samþykktur af Disney, en þar þarf allt að fara eftir settum reglum,“ segir Sindri.

„Hann hefur tekið nokkrar persónur fyrir okkur í klassíska Disney-efninu  þannig að það var auðsótt að finna rétta leikarann í hlutverk Andrésar.“

Framleiðsla á nýju þáttunum hófst í fyrra þannig að það er til slatti af þáttum en RÚV fer þó nokkuð varlega af stað. „Við erum með hálfa seríu núna til að byrja með. Þetta er hluti af stærri pakka en það er ekkert ólíklegt að þetta haldi áfram.“