Þann 22. nóvember fara í sölu miðar á sérstaka stórtónleika hljómsveitarinnar Skítamórals í Hörpu. Sveitin var stofnuð af fjórum þrettán ára drengjum á Selfossi fyrir heilum þrjátíu árum, en annar söngvaranna, Gunnar Ólason, segir þá ekkert hafa gefið eftir á öllum þessum árum og að þeir stefni á að bjóða upp á stórkostlega tónleika í maí á næsta ári.

„Tónleikarnir eru haldnir í tilefni þess að það eru 30 ár liðin síðan við komum fyrst fram. Hljómsveitin var stofnuð árið 1989 af mér, Adda, Hanna og Hebba. Svo koma síðar inn miklir leikmenn, Einar Ágúst árið 1997 og svo bætist Gunnar Þór við árið 2009,“ segir Gunnar.

Hann segir þetta nú vera orðinn þann endanlega sex manna hóp sem mun svo stíga á svið í Hörpu þann 9. maí í vor.

Farin var vendipunktur

Hljómsveitin kom fyrst virkilega fram á sjónarsvið landsmanna þegar hún gaf út lagið Sælan.

„Þar á undan vorum við samt alveg búnir að taka upp lög í stúdíói en lögðum mesta áherslu á það að vera að spila úti um allt. Stóri smellurinn og okkar „break“ er árið 1998 þegar við gefum út lagið Farin. Það var svona vendipunkturinn.“

Gunnar segir sveitina aldrei hafa lagt sína helstu smelli á hilluna tímabundið eftir að hafa ofspilað þá, enda sé þeirra helsta áhersla að skemmta áhorfendum og halda góða tónleika.

„Við viljum gefa áhorfendum það sem þeir vilja sjá, það er bara nákvæmlega þannig. Við komumst ekkert upp með það að sleppa því að spila þessi lög sem komu okkur á kortið. Þetta er nostalgía fyrir fólkið. Við erum aldrei eingöngu að flytja nýtt efni, fólk kemur til að horfa á hljómsveitina flytja sín bestu lög svo það er nákvæmlega það sem við gerum. Það er það sem er að fara að eiga sér stað í Hörpu. Við spilum eitthvað nýtt efni í bland en nostalgían verður í hávegum höfð.“

Það má því eiginlega komast svo að orði að það verði strangheiðarlegur Skítamórall sem mun koma fram í Hörpu og spila öll sín vinsælustu lög.

Gott rokk og ról

Uppáhaldslag Gunnars með sveitinni er lagið Enn þá.

„Mér finnst bæði skemmtilegt að flytja það og syngja það. Myndbandið við lagið fékk mjög mikla athygli á sínum tíma, enda mikið lagt í það. Það er er bara uppáhaldslagið mitt með okkur, svo er líka mjög gott rokk og ról í því,“ segir Gunnar.

Miðar á stórtónleikana fara í sölu á harpa.is þann 22. nóvember.