Þennan nostalgíu-myndaleik hafa þær stundað í dágóðan tíma. Hér svipta þær leyndardómnum af nýjasta jólaþemanu sínu í myndaleiknum.

„Við byrjuðum að taka þema-jólamyndir 2019. Þetta er svona okkar hobbí en þemað í ár er „gömlu jólin“ en áratugurinn sem varð fyrir valinu var sjötti áratugurinn,“ segja þær Tinna og Telma sem elska að leika sér saman við að fanga augnablikið fyrir framan linsuna. „Okkur langaði að fanga stemninguna á þeim tíma og vorum heppnar að fá að taka myndir í gömlu krambúðinni á Hernámssetrinu á Hlöðum. Uppsetningin þar passaði einmitt vel við þetta þema enda mikið af gömlum varningi sem margir þekkja í búðinni.“

Orabaunir, Bismarkbrjóstsykur og laufabrauð

Þær undirbjuggu sig vel til að passa að hlutirnir sem myndaðir yrðu pössuðu við áratuginn sem í forgrunni var. „Við fórum í gegnum gamlar myndir og skoðuðum hvaða jólavörur og jólamatur voru í gangi á þessum tíma. En Orabaunir, Bismarkbrjóstsykur og laufabrauð eru þekkt á borðum Íslendinga um hátíðirnar síðasta áratuginn og ekki má gleyma appelsíninu og maltinu.“

Svo jólalegar og fínar stelpurnar innan um jólavarninginn.MYNDIR/TELMA

Jólaskrautið frá ömmu og afa

Þegar koma að jólaskrauti þessa tíma dóu þær ekki ráðalausar. „Við fundum gamalt jólaskraut frá afa og ömmu sem við settum með en ef vel er skoðað er einmitt hér einn jólasveinn sem afi minn átti. Myndatakan sjálf tekur vanaleg heilan dag ásamt uppsetningu en við erum alltaf búnar að gera góða undirbúningsvinnu. Við leikum okkur bæði með myndavél og síma og við fjárfestum í ljósabúnaði en eins og allir vita skiptir gott ljós öllu máli fyrir góða mynd.“

Stemmingin fönguð.

Búðarþema varð fyrir valinu

„Okkur langaði að halda í búðarþemað og völdum þess vegna búninga í samræmi við það en svunturnar fengum við frá Gauja, pabba Tinnu. Við skoðuðum förðun frá þessum tíma sem einkenndist af þykkum augnblýanti og rauðum varalit. Við erum komnar á þann aldur að það þarf að sparsla vel í hrukkurnar,“ segir Telma og hlær.

Jólakrambúðin á sjötta áratugnum heillar.

Hafa húmor fyrir sjálfum sér

Þær stöllur leggja mikið upp úr að hafa gaman af þessu og njóta þess að bregða á leik. „Við tökum okkur nú ekkert of alvarlega. Eins mikið og það er af góðum myndum er alveg eins mikið af vondum myndum. Við grínumst oft með að við ættum kannski að setja upp sýningu bara með vondum myndum en heitið á sýningunni væri þá kvót í eina af okkur uppáhaldsmyndum: Death becomes her; I’ll paint your ass, you’ll paint mine, eða á íslensku: Þú sparslar mig og ég sparsla þig. Við höfum alveg húmor fyrir okkur og reynum alltaf að vera einlægar með smá guffagrín.“