Norsku geimúlfarnir í Subwool­fer, sem slógu svo ræki­lega í gegn í Euro­vision keppninni í Tórínó á Ítalíu í fyrra, komu mörgum á ó­vart á úr­slita­kvöldi norsku söngva­keppninnar, Melodi Grand Prix í gær­kvöldi þegar þeir sviptu hulunni af því hverjir þeir raun­veru­lega eru.

Úlfarnir stigu á svið á­samt fríðu föru­neyti dansara til þess að kynna nýjasta lag sitt, The Worst Kept Secret, eða Verst geymda leyndar­málið, en um mið­bik lagsins sneru þeir sér við, tóku af sér grímurnar og settu upp der­húfur og sól­gler­augu.

Upp­á­tækið vakti mikla kátínu og þótti gríðar­lega skemmti­legt, þá sér­stak­lega fyrir þær sakir að titill lagsins, The Worst Kept Secret, vísar í hversu illa þeim hafi tekist að halda því leyndu hverjir væru á bak við grímurnar.

Norska dag­blaðið Ver­d­ens Gang, sem fletti meðal annars ofan af Tinder svindlaranum marg­fræga, taldi sig hafa leyst gátuna í að­draganda keppninnar í maí í fyrra. Og nú hefur komið í ljós að blaðið hitti naglann á höfuðið.

Hverjir eru Subwoolfer?

Subwool­fer tví­eykið saman­stendur af norsku Idol stjörnunni Gaute Ormåsen og hinum breska Ben Adams, fyrrum meðlim bresku strákasveitarinnar A1 sem naut mikilla vinsælda á tíunda áratug síðustu aldar. Þegar blaða­menn VG mættu fyrir utan tón­leika­höll í Noregi í fyrra þar sem upp­taka var í gangi fyrir Euro­vision myndband sveitarinnar, sáu þeir bíla í eigu söng­varanna á bíla­stæði fyrir utan. Þá sást einnig til eigin­konu Ben Adams á hótelinu í Tórínó þar sem norska sendi­nefndin dvaldi á meðan á keppninni stóð.

Frétta­blaðið ræddi við norska Euro­vision að­dá­endur á Ítalíu í fyrra sem sögðu að Subwool­fer væri verst geymda leyndar­mál Noregs. Þó vildu þeir ekki stað­festa hverjir væru á bak við grímurnar.

Nú er spurningin, hvert liggur leið norsku geimúlfana í Subwool­fer þegar dul­úðinni hefur verið af­létt og grímurnar hafa fallið?

Mennirnir á bak við Subwoolfer grímurnar eru norska idol stjarnan Gaute Ormåsen og fyrrverandi meðlimur breska strákabandsins A1, Ben Adams.
Fréttablaðið/Samsett mynd