Norsku geimúlfarnir í Subwoolfer, sem slógu svo rækilega í gegn í Eurovision keppninni í Tórínó á Ítalíu í fyrra, komu mörgum á óvart á úrslitakvöldi norsku söngvakeppninnar, Melodi Grand Prix í gærkvöldi þegar þeir sviptu hulunni af því hverjir þeir raunverulega eru.
Úlfarnir stigu á svið ásamt fríðu föruneyti dansara til þess að kynna nýjasta lag sitt, The Worst Kept Secret, eða Verst geymda leyndarmálið, en um miðbik lagsins sneru þeir sér við, tóku af sér grímurnar og settu upp derhúfur og sólgleraugu.
Uppátækið vakti mikla kátínu og þótti gríðarlega skemmtilegt, þá sérstaklega fyrir þær sakir að titill lagsins, The Worst Kept Secret, vísar í hversu illa þeim hafi tekist að halda því leyndu hverjir væru á bak við grímurnar.
Norska dagblaðið Verdens Gang, sem fletti meðal annars ofan af Tinder svindlaranum margfræga, taldi sig hafa leyst gátuna í aðdraganda keppninnar í maí í fyrra. Og nú hefur komið í ljós að blaðið hitti naglann á höfuðið.
Hverjir eru Subwoolfer?
Subwoolfer tvíeykið samanstendur af norsku Idol stjörnunni Gaute Ormåsen og hinum breska Ben Adams, fyrrum meðlim bresku strákasveitarinnar A1 sem naut mikilla vinsælda á tíunda áratug síðustu aldar. Þegar blaðamenn VG mættu fyrir utan tónleikahöll í Noregi í fyrra þar sem upptaka var í gangi fyrir Eurovision myndband sveitarinnar, sáu þeir bíla í eigu söngvaranna á bílastæði fyrir utan. Þá sást einnig til eiginkonu Ben Adams á hótelinu í Tórínó þar sem norska sendinefndin dvaldi á meðan á keppninni stóð.
Fréttablaðið ræddi við norska Eurovision aðdáendur á Ítalíu í fyrra sem sögðu að Subwoolfer væri verst geymda leyndarmál Noregs. Þó vildu þeir ekki staðfesta hverjir væru á bak við grímurnar.
Nú er spurningin, hvert liggur leið norsku geimúlfana í Subwoolfer þegar dulúðinni hefur verið aflétt og grímurnar hafa fallið?
