Matarboðið er viðburður á Nýsköpunarviku sem snýst um að tengja veitingastaði á Íslandi við sprotafyrirtæki í matvælaframleiðslu. Þá eru vörur fyrirtækisins teknar inn á staði í takmarkaðan tíma til að kynna þær og bjóða um leið upp á eitthvað nýtt á veitingastaðnum. Á Nýsköpunarvikunni verður fyrirtækið Jurt, sem framleiðir wasabi á Íslandi undir vörumerkinu Nordic Wasabi, með samstarf við Fiskmarkaðinn.

Sérstakur matseðill í boði

„Nordic Wasabi verður kynnt hjá Fiskmarkaðinum alla Nýsköpunarvikuna. Það verður mikið smakk í boði og mikil stemning og svo í kjölfarið verður þetta alltaf á boðstólum hjá Fiskmarkaðnum,“ segir Óli Hall, yfirmaður markaðsmála hjá Jurt. „Á Fiskmarkaðnum verður boðið upp á Nordic Wasabi með nýjum og eldri réttum á matseðlinum. Það verður líka sérstakur Nordic Wasabi matseðill í boði, en á honum er wasabi mule, hörpuskel og sushi plús steik.

Þetta samstarf er góð kynning fyrir vöruna okkar og um leið gerir þetta Fiskmarkaðinum kleift að bjóða upp á nýja leið til að njóta wasabi með matnum þeirra,“ segir Óli. „Það er boðið upp á wasabi með nokkrum réttum á Fiskmarkaðinum en núna verður hægt að kaupa rótina og ef þú notar hana ekki alla færðu afganginn með þér heim í gjafaöskju ásamt uppskriftum að kokteilum og öðru sem hægt er að nota rótina í.“

Lúxusvara til útflutnings

„Eitt af því sem við erum alltaf að reyna að fræða bæði Íslendinga og erlenda ferðamenn um er að flest af því wasabi sem þeir borða er bara eitthvert grænt mauk úr piparrót, sinnepi og matarlit, en ekki alvöru wasabi-rót,“ útskýrir Óli. „Við viljum ekki að fólk sé að njóta frábærs matar eins og á Fiskmarkaðinum með wasabi sem er ekki hið eina rétta og fái þess í stað að njóta einnar viðkvæmustu og verðmætustu plöntu sem er fáanleg.

Ástæðan fyrir því að við ákváðum að fara að rækta wasabi var sú að við vildum rækta eitthvað sem myndi borga sig að flytja út. Wasabi-plantan er svo krefjandi í ræktun og fágæt að hún hefur svo hátt markaðsverð að það er hægt að hagnast á því að flytja hana út í litlu magni,“ segir Óli. „Þetta er úrvals lúxusvara og höfum við stundum talað um hana sem grænu truffluna.

Við höfum fengið mjög góðar viðtökur hér á landi og höfum líka farið með þetta wasabi utan til fremstu kokka í Bandaríkjunum og Bretlandi og fengið þvílíkt góðar viðtökur,“ segir Óli. „Það er ótrúlega gaman að vinna í svona nýsköpunarstarfsemi þar sem er verið að gera eitthvað nýtt og öðruvísi og nýta sjálfbæru orkuna og heita og kalda vatnið í þessa matvælaræktun. Það hefur ekki tekist almennilega að rækta wasabi neins staðar í Evrópu nema á einum stað á Bretlandi.“

Veisla á skrifstofunni

„Þetta er fyrsta árið sem Matarboðið kemur inn í veitingageirann og það er gaman að fá eitthvað aðeins öðruvísi inn í veitingastaðaflóruna á Íslandi,“ segir Óli. „Það verður gaman að fylgjast með þróuninni, hvort þetta stækki og fleiri veitingastaðir verði til í að vinna með íslenskum smáframleiðendum á næsta ári, en þetta ýtir undir nýsköpun í matvælabransanum.

Nýsköpunarvikan er líka ofboðslega flott framtak og það er gaman að vera hluti af henni. Við verðum líka með okkar eigin viðburð á skrifstofunni okkar á Skólavörðustíg 40 þar sem boðið verður upp á wasabi mule og wasabi bruggaðan bjór,“ segir Óli. „Siggi Laufdal og Siggi Hall verða með smakk og það verður smá húllumhæ, enda eru allir farnir að sakna þess að fara í veislu. Þetta er auglýst á Facebook hjá okkur og á vef Nýsköpunarviku.“ ■