Jean Posocco er allt í öllu hjá Froski útgáfu sem hefur um árabil verið leiðandi í útgáfu myndasagna á Íslandi. Hann hefur verið iðinn við að dusta rykið af gömlum kunningjum á borð við Viggó viðutan, Sval og Val, Ástrík og Steinrík, Lukku-Láka og nú síðast sjálfan Tinna sem var heldur betur tekið fagnandi þegar fyrstu eintökum nýrra þýðinga bókanna Ferðin til tunglsins og Í myrkum mánafjöllum var útdeilt.

Myndasögumennirnir Tumi Kolbeinsson, sjálfur Stefán Pálsson, Rúnar Ingi Hannah, Magnús Kristinsson og Gunnar Þór Sigurðsson létu sig málið eðlilega varða. Fréttablaðið/Ernir

„Myndasögunirðir eru auðvitað mjög spenntir fyrir þessu framtaki og dást að því,“ segir sagnfræðingurinn Stefán Pálsson sem er flestum fróðari um þann menningarkima sem evrópska myndasagan er.

Herra Nexus, Gísli Einarsson, eigandi mikilvægustu verslunar nörda allra landshluta, skýtur að sjálfsögðu skjólshúsi yfir Tinna og fer hér yfir málin.

„Hergé og Tinni hafa dálítið sömu stöðu innan fransk/belgísku myndasögunnar og Halldór Laxness í íslenskum bókmenntum. Sumum finnst kannski nóg um allt blætið í kringum hann og þennan endalausa iðnað, með minjagripum, fatnaði og glingri,“ heldur Stefán, sem var í essinu sínu á föstudaginn, áfram. „En fram hjá því verður ekki litið að þetta eru einhverjar áhrifamestu bækur allra tíma og bjuggu að miklu leyti til þessa bókmenntagrein.“

Gömlu Tinna-bækurnar eru eftirsóttir safngripir fyrst og fremst fyrir þýðingarnar og ljóst að þær nýju voru lagðar fyrir kröfuharða dómara á föstudaginn. Fréttablaðið/Ernir

Eins og Jean hefur þegar upplýst í samtali við Fréttablaðið var ákveðið að láta nánast helgan texta gömlu þýðinganna víkja fyrir nýjum sem eru í senn nær frumtexta Hergé og íslensku nútímamáli.

„Það eru skiptar skoðanir í hjörðinni um þessa ákvörðun að þýða bækurnar upp á nýtt, en ég er sammála því að það má ekki festast í nostalgíu varðandi gömlu þýðingarnar. Textinn verður að geta talað til yngri kynslóða,“ segir Stefán.