Nökkvi Fjalar Orrason, athafnamaður og eigandi Swipe Media, segir frá því í langri færslu á samfélagsmiðlum sínum um hvað hann hefur lært eftir að hann greindi frá því að hann er ekki bólusettur gegn Covid-19.

Nökkvi Fjalar segir að hann sé ekki á móti bólusetningum og virði ákvarðanir allra til að annað hvort láta bólusetja sig eða ekki. Hann hafi þó komist að því á þessum tíma eftir að hann greindi frá ákvörðun sinni að það sé krefjandi að hafa aðra skoðun en flestir.

„Ég lærði sl. daga að það er krefjandi fyrir einstaklinga í samfélaginu okkar að hafa aðra skoðun heldur en flestir. Ég lærði að fólk í samfélaginu okkar þorir ekki að tjá sig vegna þess að það óttast að lenda í því sem ég lenti í, að vera dæmt af stórum hluta samfélagsins. Sem betur fer er ég með margra ára þjálfun í því að taka gagnrýni og hefur gagnrýnin eingöngu styrkt mig,“ segir Nökkvi Fjalar.

Hann segir að hann telji opna umræðu góða og að hann vilji búa í samfélagi þar sem hægt er að ræða „flesta vinkla með opnum hug.“

Ákvörðunin ekki endanleg

Hann segir að hann hafi bæði fengið marga pósta frá fólki sem er ánægt með að hann hafi opnað sig um þetta og frá öðrum sem hafi látið hann heyra það fyrir að deila þessari skoðun.

Hann segir að ákvörðunin sé ekki endanleg og deilir nokkrum punktum um það hvað hafi haft áhrif á ákvörðunina um að þiggja ekki bólusetningu eins og að bóluefnið sé á tilraunastigi til 2023, að margir vísindamenn hafi gagnrýnt bólusetninguna og að bólusettir einstaklingar geti smitast og smitað aðra.

„Vísindagreinar um covid hafa einnig bent sterklega til þess að með því að huga að heilsu og lífsstíl og viðhalda heilbrigðri efnaskiptaheilsu drögum við gríðarlega úr líkunum á því að fara illa út úr covid og þar með setja aukið álag á heilbrigðiskerfið. Því er mitt framlag í þessari baráttu að hvetja aðra til að efla heilsuna sína til að létta á heilbrigðiskerfinu úr nær öllum áttum, ekki aðeins í tengslum við veiruna. Ég trúi því að heilbrigður lífsstíl og sterkt og öflugt ónæmiskerfi geti verið ein öflugasta vörnin gegn veirunni,“ segir Nökkvi Fjalar og deilir nokkrum lykilatriðum sem honum þykir skipta máli eins og að stunda öndunaræfingar, drekka vatn og huga að mataræðinu, svefni og hreyfingu. Þá segir hann mikilvægt að gefa sér tíma til að tala við aðra og vera í góðum félagslegum tengslum.

„Allir þessir hlutir hér að ofan hafa samkvæmt rannsóknum áhrif á andlegu heilsuna sem hefur gífurleg áhrif á varnarkerfið okkar, ónæmiskerfið. Eftir að ég byrjaði að stunda þessa hluti hér að ofan hefur heilsa mín og vellíðan orðið töluvert betri,“ segir Nökkvi Fjalar í færslunni sem má sjá hér að neðan.

Fréttin hefur verið leiðrétt, fyrst stóð að Nökkvi væri Óskarsson en hann er Orrason.