Textíllistakonan Helga Pálína Brynjólfsdóttir sýnir verk sín á sýningunni Tengingar í Pálshúsi, Strandgötu, Ólafsfirði. Sýningin stendur til 10. september.

„Á sýningunni eru lítil verk sem eru unnin í móberg, vafðir trékubbar og nokkur lítil þrykk,“ segir Helga Pálína. „Ég bora í gegnum móberg, sem ég finn aðallega við Kleifarvatn. Móberg er mjúkt en líka viðkvæmt og form og áferð þess kallar á mig. Ég vinn ofan í þetta form, bora gat í gegnum steininn og sauma síðan með silki eða hörþræði. Trékubbarnir á sýningunni eru afsag af pallaefni sem ég fann við sumarbústað hjá vinum mínum.

Mörg þessara verka vísa í vorið þegar náttúran byrjar að grænka og líf brýst út, eins og þegar blóm koma upp úr grámanum á milli gangstéttarhellna. Fyrir mér eru þessi smáverk nokkurs konar vorljóð. Þau eru líka eins konar formstúdíur og þar skipta litir mig miklu máli.“

Helga Pálína tengist Pálshúsi sem er safn, menningar- og fræðslusetur við Strandgötu í Ólafsfirði. „Þetta er gamalt hús sem nú er uppgert og þarna er fuglasýning, byggðarlagssýning og sýningarsalur. Ég tengist húsinu á þann hátt að pabbi minn var alinn þarna upp og var með símstöð og síðar bókabúð í plássinu sem ég sýni nú í. Seinna flutti ég í húsið við hliðina.“

Það eru um tuttugu ár síðan Helga Pálína byrjaði að vinna með grjót. „Fólk hváir yfir þessu hráefni og vinnunni, það virðist ekki hafa séð neitt þessu líkt áður,“ segir Helga Pálína. Hún hefur einnig unnið að margvíslegum textílverkum og bókverkum og tekið þátt í fjölmörgum sýningum hér heima og erlendis.

Hún er hluti af listhópnum Arkir en í honum eru listakonur sem hafa sérstakan áhuga á bókinni sem listformi. „Það skemmtilega við bókverk er að þar er hægt að vera í tilraunastarfsemi en vinna um leið með sína eigin myndbyggingu og litasamsetningu,“ segir Helga Pálína.

Helga Pálína borar í gegnum móverk og saumar í það. mynd/aðsend
Hluti verkanna sem eru til sýnis á Ólafsfirði.