Einar Kárason rithöfundur er höfundur bókarinnar Málsvörn Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, sem efalítið mun vekja mikla athygli og skapa fjörugar umræður víða.

Spurður af hverju hann hafi skrifað bók um mann sem lifir og hrærist í viðskiptum og vill hvergi annars staðar vera segir Einar: „Einn af vinum og samstarfsmönnum Jóns Ásgeirs, sem ég kannast við, hafði samband við mig og stakk upp á þessu. Ég hafði aldrei hitt Jón Ásgeir og fannst hugmyndin fráleit. Þegar ég fór síðan að skoða málið lauslega áttaði ég mig á því að alveg síðan hrunið varð 2008 hefur leitað á mig að ég þyrfti að setja mig inn í þau mál frá einhverju sjónarhorni og skrifa um Sturlungaöld hina síðari.

Ég er hvorki fræðimaður né sagnfræðingur og ákvað að það yrði enginn slíkur bragur á bókinni. Ég vildi ekki hafa neðanmálsgreinar því þá væri ég farinn að þykjast vera sagnfræðingur, sem ég er ekki. Ég er sögumaður og ég held að sagan sem ég er að segja sé sönn og rétt.“

Spurður af hverju hann hafi ákveðið að setja sögu sína á prent segir Jón Ásgeir: „Ég vildi ná utan um þennan málstíma sem ég kalla ofbeldi ríkisvaldsins og einelti gegn mér sem varði í tæpa 6.000 daga. Ég var ekki alveg viss í fyrstu en svo sá ég að það gæti verið vit í því að ég segði frá minni hlið. Mér sýnist að það hafi verið rétt ákvörðun.

Allur þessi málarekstur setti mark á ár sem hefðu átt að vera mjög góð og þótt ég væri að gera margt og væri á fullu þá var ég alltaf að hugsa um þetta. Svona atburðir fara ekki vel með mann. Svo var erfitt að fara í gegnum þetta aftur. Einar sendi mér stundum kafla og ég þurfti að peppa mig upp í að lesa þá.“

„Oft þegar ég var að spyrja hann um eitthvað þá þyrmdi yfir hann. Þetta var greinilega erfitt,“ segir Einar. „Hann er maður sem er í bissness af lífi og sál. Stundum minnti hann mig á fótboltamann sem ætlar að koma hlaupandi út á völlinn en uppgötvar að búið er að binda lóð um lappirnar á honum.“

Punktur við fyrri hálfleik

Það væri ekkert einkennilegt ef Jón Ásgeir væri fullur beiskju vegna alls þess sem á honum hefur dunið. Tala má um glötuð ár og glötuð tækifæri. „Það er klárt að það er erfiðara að fara af stað í viðskiptum eftir þetta,“ segir hann. „Auðvitað reiðist ég vegna þess að mér finnst miklum tíma hafa verið stolið frá mér. Ég hef hins vegar alltaf reynt að horfa fram á við og haldið áfram. Sumir vinir mínir hafa algjörlega fest sig í því óréttlæti sem þeim finnst þeir hafa verið beittir og komast ekki frá því. Það tekur gríðarlega á menn að lenda í svona. Framan af þurfti ég að beita mig hörku til að fara fram úr.“

Spurður hvað hafi vakið mestan áhuga hans í sögu Jóns Ásgeirs segir Einar: „Stórbrotin velgengni til að byrja með og algjörlega fáránlegt mótlæti og risastórir ósigrar síðar. Svo er áhugavert fólk í kringum þetta allt. Það eru hlutir eins og þessir sem höfða til þeirra sem segja sögur.“

Eins og Jón Ásgeir segir var hann 6.000 daga undir rannsókn eða ákæru. Lögfræðingar hans segja að enginn í Íslandssögunni hafi setið jafn lengi í yfirheyrslum. Útkoman var sú að Jón Ásgeir var sýknaður í öllum hrunmálum.

„Þarna gerast fáránlegir og furðulegir hlutir með ákærum og rannsóknum, oft út af sama hlutnum. Þegar ekki tekst að sakfella Jón Ásgeir í einhverjum málum þá er höfðað skattamál sem fer sína leið og er klárað hjá yfirskattanefnd en samt er ákveðið að halda áfram með það og lögreglan gerir húsleit hjá yfirskattanefnd. Þetta hefur aldrei gerst áður í Íslandssögunni og sýnir hvað ákafinn var rosalegur og þrýstingur mikill á að eitthvað fyndist á þennan mann,“ segir Einar.

Í bókinni er fullyrt að lögregluyfirvöld hafi verið undir þrýstingi frá ákveðnum ráðamönnum. „Ég hef vitnisburð um það sem passar svo sem við það sem menn vissu og hefur víða komið fram, að sömu ráðamenn voru að hringja í bankastjóra og hóta þeim öllu illu ef Jón fengi lánafyrirgreiðslu,“ segir Einar. „Það er líka haft eftir þekktum manni úr norska viðskiptalífinu og fyrrum stjórnarformanni Booker, sem var tengdur Baugi, að málarekstur gegn Jóni Ásgeiri og ásakanir á hendur honum, minni á Afríkuríki. Hann segist aldrei hafa kynnst neinu þessu líku í vestrænu samfélagi, eins og hér var að gerast, þar sem blandaðist saman pólitík og viðskiptaklíkur og svo lögregla og saksóknarar. Einn virtasti lögfræðingur landsins segir í bókinni að eftir að hafa kynnst því hvað gerðist í þessum málaferlum og þessari ofuráherslu saksóknaraembættisins á að fá Jón Ásgeir dæmdan, hafi hann misst bjargfasta trú á að kerfið á Íslandi væri réttlátt.“

Ásakanirnar á hendur Jóni Ásgeiri voru mjög alvarlegar. Spurður hvort hann hafi óttast að lenda í fangelsi segir Jón Ásgeir: „Í öllum þessum málum var alltaf klykkt út með hvað það gæti þýtt ef saksóknari myndi vinna málið. Ég fór ekki mikið í þá svartsýni, en það sem var vont var að fjölskyldan var að heyra þetta, allir voru að hugsa um þessi mál og hvernig þeim myndi ljúka, án þess að segja það upphátt.

Bókin setur punktinn við fyrri hálfleik hjá mér. Í byrjun seinni hálfleiks finn ég að fólk er enn að velta þessum hlutum fyrir sér án þess að spyrja. Vonandi sýnir þessi bók hvernig þetta var og hver atburðarásin var.“

Aðkoma Evu Joly

Eftir hrunið varð Jón Ásgeir í huga margra einn af tákngervingum þess. „Það voru þarna tíu til fimmtán manns sem urðu tákngervingar hrunsins. Ég var einn af þeim og það var mjög erfitt. Það var ekki fyrr en árið 2014 að þjóðin fór að átta sig á því að þetta var alheimskreppa en ekki hrun sem var bundið við Ísland. Síðan fóru í gang þessi grimmu málaferli gegn bankamönnum sem Eva Joly kynti undir og þeim lauk ekki fyrr en á síðasta ári,“ segir Jón Ásgeir.

Einar skýtur inn í: „Ég hafði ekkert velt fyrir mér aðkomu Evu Joly. Eitt af því sem kom mér á óvart og mér fannst mest sjokkerandi af öllu, er það sem fór þá í gang, eins og hleranir, frysting eigna og svo framvegis. Þetta er nokkuð sem mér finnst að yfirvöld og þjóðin eigi eftir að gera upp. Þetta var fáránlegt, miskunnarlaust og vanhugsað. Öllum hugmyndum okkar um réttarríki var hent út um gluggann eins og ekkert væri.“

En var ekki eðlilegt að fólk reiddist þegar það var sjálft að missa eignir og horfði um leið upp á auðmenn sem lifðu flott og sumir ansi glannalega, spyr blaðamaður.

„Það er klárt að menn fóru of geyst, enginn þrætir fyrir það. Menn verða að læra af því sem gerðist,“ segir Jón Ásgeir. Hann er spurður hvort hann sjái eftir einhverju og segir: „Ég sé eftir því að hafa ekki staldrað við og einbeitt mér að því að reka það sem ég kunni, í staðinn fyrir að vaða í önnur verkefni.“

Mótlætið aðalefnið

Sagan sem Einar segir er sögð út frá sjónarhorni Jóns Ásgeirs og þeirra sem hafa starfað með honum og þekkja hann. Einar er spurður hvort hugsanlega sé annar flötur á þessari sögu sem hafi verið falinn fyrir honum. Er hann fullviss um að hann sé að segja rétta sögu? Hann svarar: „Allt sem ég heyrði, rannsakaði og las, hef ég fengið staðfest. Það er hægt að segja sögu eins og þessa frá ýmsum sjónarhornum. Það væri örugglega hægt að vitna í einhver önnur orð en þau sem ég vitna í, en ég raða sögunni saman á ákveðinn hátt. Mótlætið sem Jón Ásgeir varð fyrir er aðalefni þessarar bókar.

Jón Ásgeir og hans fólk hefur í rauninni aldrei svarað öllum þeim árásum sem gegn honum hafa beinst. Að einhverju leyti var það vegna þess að hann var eins og lamaður af öllum þessum ákærum, endalausu rannsóknum og yfirheyrslum. Þegar sýnt var að það væri að klárast árið 2018, þá var tími til kominn að segja þessa sögu.“

Ekki sagt fyrir verkum

Einar segist allt eins eiga von á hörðum viðbrögðum vegna aðkomu sinnar að bókinni. „Við Jón Ásgeir ákváðum að vera ekki að gera opinbert að við værum að vinna þetta verk. Auðvitað hefur það spurst út og bæði vinir mínir og fólk í fjölskyldunni hefur orðið steinhissa og jafnvel hneykslað. Það sem skiptir máli í þessu er fyrst og fremst að það er enginn sem segir mér fyrir verkum hvað á að standa í bókinni. Ég skrifa bókina og ræð því algjörlega hvað þar stendur.

Ég veit að það verður gefið í skyn að ég hafi gerst leigupenni. Ég fékk aðeins nasasjón af því þegar hringt var í mig frá Stundinni og spurt hver væri að borga fyrir þetta verkefni. Þá mundi ég að sami fjölmiðill hafði gert mjög tortryggilegt að sá góði og vandaði sagnfræðingur Guðjón Friðriksson skyldi hafa skrifað bók um Halldór Ásgrímsson í fyrra, sem var kostuð af vinum og fjölskyldu Halldórs.

Hitt, sem ég vissi líka að einhver myndi gera tortryggilegt, er að maður sem fær listamannalaun væri að vinna að verki eins og þessu. Þá ber þess að geta að bókin var unnin á tímabili þegar ég fékk ekki krónu úr opinberum sjóðum.“

Spurður hvort Jón Ásgeir hafi borgað honum fyrir að vinna verkið segir Einar: „Þetta er samvinnuverkefni þriggja aðila; mitt og hans og hans fólks og Forlagsins, sem gefur bókina út. Það er okkar á milli hvernig kaupin gerast þar á eyrinni. Meiningin var að allir fengju sitt eftir vinnuframlagi.“

Nýjar forsendur

Víst er að ýmsir eiga eftir að liggja yfir bókinni sem mun örugglega vekja mikla athygli. „Ég held að það verði smá stormur en ég hef komið minni hlið á framfæri í viðtölum við Einar og hann talaði við stóran hóp manna,“ segir Jón Ásgeir.

„Ef umræðan blossar upp, sem hún eflaust mun gera, þá eru þarna allavega nýjar forsendur,“ segir Einar. „Á fyrsta heila ritstjórnarmánuði Davíðs Oddssonar birtust rúmlega 60 greinar í 25 tölublöðum í nóvember 2009 og þær voru allar fullar af neikvæðni og reiði í garð Jóns Ásgeirs og Baugsmanna. Síðustu tólf árin hafa menn sem hafa sterka rödd í samfélaginu haldið því fram að mikil ógæfa hafi hent Ísland, vegna þess að menn eins og Jón Ásgeir hafi sett landið á hausinn eða hreinlega tekið völdin í þjóðfélaginu. Umræðan er á þeim forsendum af því það voru engar aðrar forsendur til. Nú eru hér komnar 400 síður þar sem búið er að rýna í þessa sögu og menn geta skoðað atburði út frá nýjum forsendum sem eru miklu réttari en það sem áður hefur verið haldið fram.“

Málsvörn Jóns Ásgeirs Jóhannessonar byrjar sem hetjusaga manns sem vinnur glæsta sigra, en endar nánast sem harmsaga. Blaðamaður hefur á orði að þetta minni á dramatíska skáldsögu.

„Það er það sem ég sá í þessu,“ segir Einar. „Menn eins og Balzac á 18. öldinni hefðu komist í hamingjuvímu ef þeir hefðu komist í þetta efni og skrifað sögu um svona mann. Svo er það plús að þessi maður er til og er á meðal okkar, ekki bara uppdiktuð fígúra.“

Má ekki gerast aftur

Í bókinni er dregin upp mynd af Jóni Ásgeiri sem virkar mjög sannfærandi en viðmælendur eru mjög sammála um hvað einkenni hann. Um þetta segir Einar: „Þegar ég bað fólk að lýsa honum bar öllum saman um að hann væri þessi feimni maður sem aldrei skipti skapi og talar ekki illa um nokkurn mann, stendur við allt sem hann segir og man allt. Sama var þegar ég talaði við útlenda félaga hans í bissness, sérstaklega á Bretlandseyjum þar sem eru hákarlar, eins og Philip Green, sem komast áfram á endalausum tuddaskap, vaða yfir allt og alla, eru stóryrtir og frekir og skirrast ekki við að segja eitt og gera annað. Þeim bar saman um að Jón Ásgeir hefði afvopnað hákarla með rólyndinu og hann væri þekktur fyrir að standa við það sem hann segði. Þetta finnast manni óneitanlega vera sjarmerandi mannkostir.“

Að lokum er Jón Ásgeir spurður hvað hann ætli að taka sér fyrir hendur í framtíðinni. „Ég hef gaman af að stunda viðskipti og standa í rekstri en kannski þarf ég líka að eyða meiri tíma í annað,“ svarar hann.

„Menn gera það sem þeir eru náttúraðir til,“ segir Einar. „Mér finnst álíka ólíklegt að Jón Ásgeir snúi sér að því að skrifa bækur eins og að ég fari að reka alþjóðlegt fyrirtæki.“

„Þetta er eitthvert DNA sem ekki er hægt að kippa út úr kerfinu,“ segir Jón Ásgeir. Hann leggur áherslu á að í bókinni birtist önnur hlið en áður hefur komið fram. „Fólk er enn að spyrja: Hvað gerðist? Hvernig var þetta? Bókin svarar þeim spurningum. Mér finnst mikilvægt að þessi hlið á málum komi fram. Það sem gerðist með öllum þessum málarekstri er nokkuð sem má ekki gerast aftur.“

Sigtryggur Ari.