Við skipulag afmælisárs Landverndar var lögð áhersla á að skapa sem breiðast samstarf við ólíka hópa og höfða til sem flestra með fjölbreyttri nálgun á umhverfismál,“ segir Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir, sérfræðingur hjá Landvernd og verkefnisstjóri afmælisárs Landverndar.

„Landvernd var stofnuð sem landgræðslusamtök árið 1969 og til að hvetja almenning til landgræðslu og hugsa betur um náttúruna, til dæmis með því að henda ekki rusli á víðavangi, en í dag eru umhverfismálin orðin miklu fjölbreyttari,“ útskýrir Sigríður Bylgja.,

„Áskoranirnar eru gífurlegar og varða hreinlega lífsmöguleika næstu kynslóða á þessari jörð. Því er okkur mikilvægt að höfða til sem flestra og fá fólk í lið með Landvernd til að efla umhverfisfræðslu og umræðu um umhverfismál, til að geta stuðlað að breytingum og þrýst á aðila, eins og stjórnvöld og fyrirtæki, og til að grípa til aðgerða sem skipta máli,“ segir Sigríður Bylgja.

Eitthvað fyrir alla

Samstarfsaðilar Landverndar á afmælisárinu eru af fjölbreyttum toga svo allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

„Í janúar tökum við höndum saman með Veganúar og í febrúar með Birni Steinari Blumenstein hönnuði. Í apríl vinnum við með ungmennahúsunum og Rannís í september. Samstarfsaðilar eru allt frá vísindasamfélaginu til skóla og listamanna, til Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands og jógum til hönnuða,“ upplýsir Sigríður Bylgja.

Yfir sumarmánuðina leggur Landvernd áherslu á viðburði úti í náttúrunni.

„Við tökum okkur smá frí í júlí til að hlaða batteríin og hvetjum alla til að gera slíkt hið sama. Það er nefnilega vísindalega sannað að útivera í óspilltri náttúru hefur jákvæð áhrif á heilsuna,“ segir Sigríður Bylgja brosandi.

Stærsti viðburðurinn verður svo á 50 ára afmælisdegi samtakanna, þann 25. október 2019, og verður dagskrá afmælisdagsins auglýst síðar.

„Öll dagskrá afmælisársins miðar að því að miðla og fræða og bjóða fólki í samtal um umhverfismál. Aðalmarkmiðið er auðvitað að vekja athygli á samtökunum og því sem við vinnum að, en verkefni Landverndar eru ótrúlega fjölbreytt og skemmtileg,“ segir Sigríður Bylgja.

Allt er umhverfismál

Að sögn Sigríðar Bylgju má tengja nær allt í tilveru mannsins við umhverfismál, hvort sem það eru matarvenjur, neysla, samgöngumáti, stjórnmál eða annað.

„Við megum ekki gleyma að við deilum þessari jörð með 7,7 milljörðum manneskja, auk allra þeirra sem á eftir okkur munu koma; börnin okkar, barnabörn og barnabarnabörn. Því væri jörðinni og umhverfismálum afskaplega hollt ef allir, bæði einstaklingar, fyrirtæki og stjórnvöld, myndu hugsa eins og indíánarnir gerðu, sjö kynslóðir fram í tímann, en ekki í ársfjórðungum eða ársuppgjöri. Við eigum nefnilega bara þessa einu jörð og margar af hennar auðlindum eru takmarkaðar. Okkar er valdið og ábyrgðin til þess að nýta þær skynsamlega þannig að þau sem á eftir okkur koma geti notið hennar líka.“

Neita í stað þess að neyta

Sigríður Bylgja stingur upp á eftirfarandi:

„Við ættum að hætta að vera svona miklir neytendur og verða þess í stað neitendur. Neita að taka þátt í allri neyslunni sem okkur er talin trú um að við þurfum til að verða hamingjusöm. Neitum bara að taka þátt í henni og förum þess í stað að njóta! Búa til fallegar minningar, njóta samverustunda og þess stutta tíma sem við eigum hér á þessari fallegu jörð.“

Þessi grein birtist fyrst í afmælisriti Landverndar sem gefið var út og fylgdi Fréttablaðinu miðvikudaginn 9. janúar 2019.