Bergljót segir að þetta sé ótrúlega skemmtilegur ferðamáti þar sem hægt er að njóta landanna á allt annan hátt en gert er í bíl. „Það var algjör tilviljun að við kynntumst þessum ferðamáta árið 2010. Við erum mikið útivistarfólk, fórum á fjöll, til dæmis á Hornstrandir og hálendið auk þess að vera í gönguhópi. Á leið í eina slíka ferð átti ég erindi í Fjallakofann í Hafnarfirði. Þetta var á föstudegi og rétt áður en við lögðum af stað í bakpokaleiðangur. Þá rak ég augun í auglýsingu sem hékk uppi í glugganum um hjólaferð til Ítalíu. Ferðina átti að fara fjórum vikum seinna. Ég leit til eiginmannsins og spurði hvort þetta væri ekki eitthvað fyrir okkur. Það reyndist vera pláss fyrir okkur í ferðinni og hún varð svo frábær upplifun að við höfum farið á hverju ári síðan,“ segir Bergljót. „Það má segja að þetta hafi verið tilviljunarhugdetta,“ bætir hún við og hlær.

Serbl_Myndatexti:Það er víða fallegt á Ítalíu þar sem hjónin hafa hjólað.

„Við höfðum ekki hjólað mikið, kannski stundum til vinnu en vorum vel á okkur komin. Í þessari fyrstu ferð okkar var farið að Gardavatninu á Ítalíu. Ferðin kveikti sannarlega áhugann,“ segir Bergljót. „Næsta ár á eftir fórum við aftur í ferð með Fjallakofanum og Brandi Guðjónssyni. Þegar við höfðum klárað allar þeirra ferðir leituðum við til ítalskrar ferðaskrifstofu og fórum með henni í hjólaferð. Við höfum hjólað um Ítalíu, Króatíu, Rúmeníu, Austurríki og Slóveníu. Flestir hafa ferðirnar þó verið um Norður-Ítalíu.“

Þegar Bergljót er spurð hvort þetta sé skemmtilegur ferðamáti, svarar hún: „Mér finnst þetta langskemmtilegasti ferðamáti sem ég hef upplifað. Ég hef einu sinni farið í gönguferð í Skotlandi og aðra á Grænlandi. Í slíkum ferðum fer maður hægt yfir og takmarkað hvað hægt er að ganga mikið hvern dag. Í hjólaferðum nýtur maður útiverunnar, andar að sér sumrinu, finnur angan í loftinu, hvort sem það er af blómum eða kúamykju. Hjólað er á minni vegum og maður tekur inn náttúruna og kemst yfir miklu stærra landsvæði heldur en þeir sem eru fótgangandi,“ útskýrir hún.

Serbl_Myndatexti:Hjólaferðir eru venjulega lausar við stress og hægt að njóta náttúrunnar.

Bergljót segir að ferðirnar séu ekki erfiðar og nú séu rafhjól komin til sögunnar sem geta auðveldað hjólatúra. „Við höfum ekki hjólað á rafhjólum svo maður hefur þurft að vera í smá æfingu. Það er ekki sniðugt að fara af stað alveg óundirbúinn. Maður er að hreyfa sig og nota vöðvana því þetta getur tekið á. Það er einmitt það besta við ferðirnar. Það er engin ástæða til að hafa samviskubit á kvöldin þegar maður sest við þriggja rétta matarveislu eftir hreyfingu dagsins. Gisting og matur er innifalið sem er mjög þægilegt.“

Hjólaferðir eru streitulausar eftir því sem Bergljót segir. „Þetta er ekki Tour de France í einhverju kapphlaupi við tímann. Ég myndi frekar segja að þetta væri þægilega afslappandi, lagt af stað um tíu á morgnana og hjólaðir svona 50-60 kílómetrar á dag. Þetta eru ferðir til að njóta,“ segir hún. „Fólk gefur sér tíma til að setjast niður í hádeginu, stoppað er til að taka myndir eða til að fá sér kaffibolla. Það hentar mér mjög vel að geta algjörlega kúplað mig út úr stressi hins daglega lífs.“

Bergljót og Guðmundur gistu um borð í þessum báti í Króatíu og sigldu á milli hjólaferðanna.

Bergljót og Guðmundur eru hvergi hætt því næsta ferð er á dagskrá í haust. „Við viljum ferðast síðla sumars því hitinn getur verið mikill á þessum slóðum um hásumarið. Sú ferð verður um Slóveníu og Króatíu. Við höfum farið í skemmtilegar ferðir til Króatíu þar sem siglt er á bát á milli staða. Boðið er upp á gamla eikarbáta sem hafa gistirými og það er alveg frábært að ferðast með þeim. Við höfum siglt á milli eyjaklasans við Króatíu. Við stígum af bátnum með hjólin og báturinn siglir áfram á næsta viðkomustað okkar og bíður. Það er alveg einstaklega fallegt á þessum slóðum.“

Þau hjónin hafa líka verið dugleg að fara í skíðaferðir á vetrum en Bergljót segir að sér finnist eiginlega hjólaferðirnar skemmtilegri.

„Sólin, blómin, ilmurinn af landbúnaði og allt þetta í umhverfinu heillar mig algjörlega.“