Skráning í keppnina sem heitir nú Síminn Cyclothon hófst í vikunni og þetta er allt eins og það var. Svipuð gleði og vonandi heldur sama fólkið áfram að taka þátt,“ segir Þorvaldur Daníelsson, sem er miklu þekktari sem Valdi í Hjólakrafti.

„Ég hef ekki fylgst nákvæmlega með hverjir eru búnir að skrá sig en þetta er allt að detta í gang og ætti að verða líflegt á næstu dögum. Það eru náttúrlega svo mörg fyrirtæki búin að hafa samband.“

Hægt að þjóta eða njóta

Valdi hefur góða ástæðu til þess að reikna með fjölda kunnuglegra nafna fólks og fyrirtækja á skráningarlistanum þar sem keppnin er fyrir löngu orðin fastur liður í félagslífi fjölda hópa og fyrirtækja auk þess sem erlendar hjólakempur hafa haft sig í frammi í krefjandi einstaklingskeppninni.

WOW Cyclothon.

Fyrir utan nýtt nafn segir Valdi nýjan, opinn flokk vera helstu breytinguna sem fólk verði vart við að þessu sinni. „Þetta er skemmtiflokkur sem er afslappaður og minna keppnis og kemur með svolítið annan vinkil á þetta þar sem í honum er fólk meira að njóta en ekki endilega þjóta.“

Valdi hjólaði sex sinnum í keppninni á meðan hún var haldin undir fjólubláum merkjum WOW og er því öllum hæðum, hólum og malarköflum kunnur þótt hann komi nú í fyrsta skipti beint að keppnishaldinu sjálfu.

Símsend fallhlíf

„Ég er að koma að þessu þannig í fyrsta skipti en hef tekið þátt sex sinnum með fullt af liðum, eða fjöldanum öllum af krökkum öllu heldur, á vegum Hjólakrafts. Keppnin er mér í rauninni mjög hjartfólgin og það einhvern veginn lá svo beint við að við myndum reyna að vinna aðeins saman að því að halda henni við og hafa hana áfram á dagatalinu,“ segir Valdi um samstarfið við Símann sem hann er í af lífi og sál.

Litlu mátti muna að hjólamessufall yrði í fyrra þegar WOW flaug í gegnum sinn endurfjármögnunarBermúdaþríhyrning og Valdi segir aðspurður að raunveruleg hætta hafi verið á því að keppnin legðist af.

„Það var nefnilega alltaf svo hætt við því og það má náttúrlega segja það að þetta gjaldþrot flugfélagsins hafi ekki verið að hjálpa neinum neins staðar. Það er bara ótrúlega frábært í rauninni að við höfum fengið öflugt fyrirtæki eins og Símann til þess að taka þennan bolta áfram.“

Mögnuð upplifun

„Mér er gríðarlega annt um þetta,“ segir Valdi þegar talið berst að krökkunum sem hjóla með Hjólakrafti. „Við erum alltaf yngsti hópurinn og það voru, til dæmis, tveir tíu ára með mér í fyrra. Vægast sagt grjótharðir og þarna er fólk sem er jafnvel ekki að slá í gegn á öðrum vettvangi að koma og alveg að sanna sig sem hinir mestu kappar,“ segir Valdi sem segist beinlínis sjá krakka leggja af stað en koma til baka fullorðin. „Þetta er bara þannig í alvöru. Það myndi enginn trúa þessu.“

Keppnisleiðin er torfær þannig að ekki veitir af að geta sótt viðbótarorku í metnaðinn sem gírast hratt upp. „Fólk vill standa sig og þetta er náttúrlega upplifun en hugsunin með skemmtiflokknum er að gefa þeim sem eru kannski minna í þessum keppnisgír en langar að fá upplifunina af því að vera úti að hjóla um allt landið kost á því að vera með.“