Paris Hilton, fyrr­verandi raun­veru­leika­stjarna og hótelerfingi, lýsti í á miðvikudag skelfi­legu of­beldi sem hún varð fyrir þegar hún dvaldi í heima­vistar­skóla sem ung­lingur.

Paris hélt ræðu á við­burði í Capitol Hill í Was­hington DC í vikunni þar sem nýtt frum­varp var kynnt. Frum­varpið á að tryggja betur rétt þeirra ung­menna sem dvelja í heima­vistar­skólum eða á öðrum stofnunum fjarri for­ráða­mönnum sínum.

Í um­fjöllun Rolling Stone er bent á að þúsundir ung­menna séu send í heima­vistar­skóla eða æfinga­búðir gegn vilja sínum. Hálf­gerður iðnaður hafi skapast í kringum þetta vestan­hafs sem veltir milljörðum dollara á ári hverju.

Meðal þeirra sem leggja frum­varpið fram eru þing­menn Demó­krata­flokksins frá Oregon og Kali­forníu. Paris Hilton er stuðnings­maður frum­varpsins og lýsti hún eigin reynslu í ræðu á við­burðinum.

Paris rifjaði meðal annars upp að þegar hún var 16 ára hafi hún verið vakin um miðja nótt, hand­járnuð af tveimur mönnum og flutt á brott í ein­hvers­konar úr­ræði fyrir vand­ræða­ung­linga. Sagði hún að þrengt hafi verið að hálsi hennar, hún slegin í and­litið og ó­prúttnir starfs­menn njósnað um hana meðan hún var í sturtu. Þá hafi svefn verið af skornum skammti.

„Ég var kölluð öllum illum nöfnum og neydd til að taka lyf án þess að hafa fengið ein­hvers­konar greiningu. Á einu slíku heimili í Utah var ég sett í ein­angrun í her­bergi þar sem klór­för og blóð­slettur voru á veggjum.“

Paris benti á það að svört skýrsla hafi komið út árið 2008 um heima­vistar­skóla og ung­linga­heimili, en samt sem áður hafi lítið gerst síðan þá. Ekki sé nægt eftir­lit haft með þessum heimilum og flest starfi þau ó­á­reitt. Hvatti hún Joe Biden, for­seta Banda­ríkjanna, til að styðja frum­varpið og að þing­menn Demó­krata og Repúblikana ættu að sam­einast um það. Hér væri um mikil­vægt mann­réttinda­mál að ræða sem væri hafið yfir flokks­línur.