Kvikmyndaframleiðslufyrirtækið Millennium Films hefur ákveðið að setja nýjustu kvikmynd leikstjórans Bryan Singer, Red Sonja, á ís en leikstjórinn var nýverið sakaður um kynferðisbrot af fjórum mönnum. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um að fá annan leikstjóra, að því er fram kemur í umfjöllun Hollywood Reporter.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem að ásakanir á hendur leikstjóranum koma upp og ekki í fyrsta sinn sem að ásakanirnar hafa áhrif á verkefnin hans en nýverið var myndin Bohemian Rhapsody svipt tilefningum af forsvarsmönnum GLAAD fjölmiðlaverðlaunanna vegna meintra kynferðisbrota leikstjórans.

Sjá einnig: Svipta Bohemian Rhapsody tilnefningunni

Vefmiðillinn Atlantic greindi með ítarlegum hætti frá frásögnum mannanna og var þeirra á meðal maður að nafni Victor Valdovinos sem segist hafa verið aukaleikari í kvikmyndinni Apt Pupil undir leikstjórn Singer árið 1997 þegar hann hafi snert á sér kynfærin og berað sig. Mennirnir fjórir segjast allir hafa verið unglingar þegar brotið var á þeim en Singer hefur þvertekið fyrir brotin.

Red Sonja er endurgerð á samnefndri kvikmynd frá árinu 1985 með Brigitte Nielsen í aðalhlutverki og fjallar um raunir kvenkyns ofurhetjunnar Red Sonja en kvikmyndaframleiðandinn hafði gert ráð fyrir að kostnaður við myndina yrði um 70 til 80 milljónir bandaríkjadollara en líkt og gefur að skilja er óvíst hvað verður um myndina að svo stöddu.