Leikhús

Njála á hundavaði

Höfundur: Óþekktur

Borgarleikhúsið

Leikarar: Eiríkur Stephensen og Hjörleifur Hjartarson

Leikgerð: Hjörleifur Hjartarson

Leikstjórn: Ágústa Skúladóttir

Leikmynd og búningar: Þórunn María Jónsdóttir

Tónlist: Hundur í óskilum

Lýsing og myndbönd: Ingi Bekk

Hljóð: Þorbjörn Steingrímsson

Leikgervi: Þórunn María Jónsdóttir og Elín S. Gísladóttir

Aðstoðarleikstjóri og framleiðslustjóri: Vigdís Perla Maack

Nýaldarpakkið á Bergþórshvoli og stjörnuparið á Hlíðarenda eru mætt aftur í Borgarleikhúsið, með pompi og prakt í bland við góðan slurk af gamaldags blóðsúthellingum og hefnd að víkingasið. Höfundur eða höfundar Njálu eru kannski óþekktir, en ekki fer á milli mála að Njála á hundavaði, sem frumsýnd var síðastliðna helgi, kemur beint úr ranni Hunds í óskilum, þeirra Eiríks Stephensen og Hjörleifs Hjartarsonar.

Að þessu sinni fara Eiríkur og Hjörtur aðeins öðruvísi leið að efninu en áður, þó að húmorinn sé auðvitað hornsteinn sýningarinnar eins og þeir eru þekktir fyrir. Sjaldan hefur íburður þeirra kumpána verið meiri, enda má segja að þetta sé þeirra stærsta sýning til þessa.

Í stað þess að æða yfir íslenska sögu með laustengdum bröndurum og söngnúmerum, þá kafa þeir djúpt ofan í eina frásögn sem inniheldur ríflega 600 persónur, spannar nokkra áratugi og takmarkast ekki við landsteinana.

Einstök sviðsframkoma

Að smala öllum söguþræðinum og hundruðum persóna í tveggja klukkutíma langa leiksýningu er sannkallað grettistak (afsakið vísun í aðra Íslendingasögu). Handritið hefði alveg þolað frekari styttingu, nokkrum lengri bröndurunum og sumum frásögnum hefði mátt koma í annan farveg, til dæmis framsetningunni á Þorgerði dóttur Hallgerðar, sem situr illa.

Sýningin er sterkust þegar Njála er sett í samhengi við samtímann, aukapersónur á borð „hinn Höskuld“ fá að njóta sín og kristnitakan er tekin til bæna. Ættarsagan endalausa, sem einkennir bæði smæð landsins og sápuóperukeim Íslendingasagnanna, er nefnilega bráðfyndin og alltaf að endurtaka sig.

Einn af helstu kostum dúettsins er metnaðurinn, bæði fyrir textasmíði og leikmunum. Leikgleðin er líka einkennandi. Hvor um sig hafa þeir einstaka sviðsframkomu og varla er hægt annað heldur en að hrífast með þeim. Þeir eru síðastir til að taka sjálfa sig alvarlega, enda skilgreina þeir sig ekki sem leikara heldur sagna- og tónlistarmenn.

Gunnarshólmi taka tvö er listasmíð þar sem gert er stólpagrín að hinu fræga ljóði Jónasar Hallgrímssonar, en annað erindið hefst á þennan veg: „Já Gunnarshólmi er langt og köflótt kvæði / um kappa í bland við grasa- og steinafræði / sem þjóðskáld orti þunnur eins og pappi / þegar hann var í Fljótshlíðinni á vappi.“

Frábærar lausnir

Herlegheitunum stjórnar Ágústa Skúladóttir sem ekki er ókunnug vitleysunni í parinu, enda er þetta í þriðja sinn sem hún er við stjórnvölinn. Hún gerir margt vel og finnur ágætan farveg fyrir netta stjórnleysið sem fylgir Eiríki og Hjörleifi, en hefði mátt stíga fastar til jarðar. Þórunn María Jónsdóttir hannar bæði leikmynd og búninga.

Hundur í óskilum er þekktur fyrir að smíða hljóðfæri úr öllum sköpuðum hlutum og finnur nokkrar frábærar lausnir til að hreinlega umkringja sig af tækifærum. Þá verður sérstaklega að nefna búning Hallgerðar, höfuðfötin og hárkollurnar sem spila stórt hlutverk í sýningunni, þar kemur aðstoð Elínar S. Gísladóttur sér vel. Ingi Bekk dýpkar síðan sviðsmyndina með nokkuð smellinni myndbandsvinnu sem hefði jafnvel mátt nota meira.

Njála á hundavaði mun án efa slá í gegn hjá fjölmörgum aðdáendum tvíeykisins Hunds í óskilum og ekki veitir af hlátri í skammdeginu. Seint verða þeir Eiríkur og Hjörleifur sakaðir um þung efnistök, en Njála reynist þeim aðeins erfiðara verkefni en oft áður.

Niðurstaða: Hægt er að treysta Hundi í óskilum fyrir óstýrilátri skemmtun og leiftrandi snilld á köflum.