Alþjóðleg ráðstefna um leiklist í menntun verður haldin á Íslandi dagana 4. til 8. júlí. Um er að ræða níundu heimsráðstefnu IDEA samtakanna og sjá FLÍSS, félag um leiklist í skólastarfi, og Háskóli Íslands um skipulagningu.

Samkvæmt tilkynningu frá skipuleggjendum er ráðstefnan liður í því að efla listgreinar í skólastarfi. Ísland er í fararbroddi þegar kemur að listgreinum í grunnskóla en ekkert annað Evrópuland hefur leiklist sem listgrein í aðalnámskrá grunnskóla og horfa aðrar þjóðir til Íslands hvað það varðar.

Um 160 manns munu sækja ráðstefnuna víðs vegar að úr heiminum og koma fjölmargir sérfræðingar á sviði leiklistar og menntunar fram. Aðalfyrirlesarar eru Faisal Kiwewa, stofnandi og listrænn stjórnandi Bayimba Foundation í Úganda, Kristian Nødtvedt Knudsen, dósent í leiklist við sjón- og leiklistardeild Háskólans í Agder í Noregi, Rannveig Björk Þorkelsdóttir, dósent í leiklist við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, og Terry Gunnell, prófessor í þjóðfræði við Háskóla Íslands.

Ráðstefnan verður haldin í húsnæði menntavísindasviðs HÍ í Stakkahlíð og í Tjarnarbíói.