Hrafnhildur, níu ára dóttir Loga Bergmanns og Svanhildar Hólm Valsdóttur, ákvað að taka málin í sínar eigin hendur eftir að foreldrar hennar neituðu að kaupa handa henni hest. Hún ákvað að beina föður sínum á rétta braut með því að bæta honum inn í grúppu fyrir hestasölu.

Logi greindi frá uppátæki dóttur sinnar í færslu sem hann deildi á Facebook.

„Við höfum átt þessar samræður nokkuð oft. Það stendur ekki til að kaupa hest,“ segir Logi en dóttir hans tók upp á því að bæta honum í Facebook grúppu að nafni Hestar til sölu. Logi segir í samtali við Fréttablaðið að dóttir hans hafi mikinn áhuga á reiðmennsku enda hafi hún farið þrisvar á reiðnámskeið.

Hrafnhildur hafi beðið um fá símann hans lánaðan í smástund. Það sé ekki í frásögur færandi enda gerist það oft. „Hún fer í leiki, tékkar á strætóferðum eða skoðar eitthvað á netinu. Svo skilaði hún símanum. Nokkru síðar fékk ég þessa tilkynningu sem fylgir,“ segir Logi.

Þá hafi hann fengið þau skilaboð um að beiðni hans um að ganga í Facebook grúppuna Hestar til sölu hafi verið samþykkt. „Hrafnhildur var að tala um það í dag að hana vantaði hest,“ sagði Svanhildur Hólm þegar hún sá skjáskot af beiðninni.

Logi segir að Hrafnhildur sé einstaklega sjálfstætt barn og sé þetta hestamál mjög lýsandi fyrir það.

„Hún er mjög sjálfstæð. Hún hefur alltaf verið einstaklega sjálfstætt barn. Þetta hestamál er mjög lýsandi fyrir það. Ef henni finnst hlutirnir ekki ganga nógu hratt þá tekur hún málin í eigin hendur. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hún gerir svoleiðis. En við ætlum ekki að kaupa hest,“ segir Logi í samtali við Fréttablaðið.

Logi hefur áður deilt sprenghlægilegum sögum af dóttur sinni á Facebook. Þá er greinilegt að Hrafnhildur er jafnréttissinni sem á sér stóra drauma um að verða dýrapassari og sitja á þingi. Og að sjálfsögðu eignast hest.