Svo virðist sem japanski tölvuleikjarisinn Nintendo stefni að því að gera eigendum Nintendo Switch, nýjustu leikjatölvu fyrirtækisins, mögulegt að spila marga bestu leikja tíunda áratugarins á tölvunni í bráð.

Glöggir lesendur tölvuleikjaunnendaspjallborðsins Resetera komu í dag auga á umsókn fyrirtækisins um einkaleyfi á nýrri útgáfu fjarstýringa fyrir Switch. „Nýju“ fjarstýringarnar eru eftirlíking af þeim sem fylgdu Super Nintendo Entertainment System, eða SNES, í upphafi tíunda áratugarins og sérhannaðar til þess að tengjast Switch þráðlaust.

Nintendo setti eftirlíkingar af hinum eldri NES-fjarstýringum á markað á síðasta ári. Gaf á sama tíma út leiki á borð við Super Mario Bros. 2 og Kirby‘s Adventure á ný fyrir Switch.

Ef japanska fyrirtækið endurtekur leikinn má búast við því að goðsagnakenndir leikir á borð við Final Fantasy III, Chrono Trigger, Super Metroid og The Legend of Zelda: A Link to the Past líti dagsins ljós á ný.