„Ég fagnaði þessum tímamótum með því að opna rauða og njóta þess einn heima í fyrra ef ég man þetta rétt,“ segir leikarinn Níels Thibaud Girerd, þegar hann er spurður hvað hann gerði á tíu ára afmæli þess þegar hann rappaði „Sælir Nilli“ frammi fyrir alþjóð.

Nilli var staddur í Lissabon í heimsókn hjá kærustunni, knattspyrnukonunni Sóleyju Guðmundsdóttur, þegar Fréttablaðið náði af honum tali og var í besta skapi, eins og reyndar venjulega.

„Ég sit bara hérna yfir kaffibolla í Portúgal,“ segir Nilli og leggur áherslu á síðasta orðið með frönskum hreim. „Hér verð ég í viku,“ heldur hann áfram eiturhress.

Nilli segist nokkuð reglulega minntur á eigin frammistöðu í innslagi Monitor frá því í október 2010, þar sem hann skaust skyndilega upp á stjörnuhimininn. „Ég var einmitt minntur á þetta um daginn, þá poppaði eitthvað upp á Facebook hjá félaga mínum. En í fyrra fannst mér þetta mikil tímamót en þá var þetta Covid í algleymingi,“ segir Nilli.

„Ég og Sóley gerðum okkur glaðan dag, fögnuðum þessu og ætli við höfum ekki bara hlustað á lagið?“ spyr Nilli hlæjandi.