Svæsin maga­pest gengur nú um gólf innan veggja Love Is­land glæsi­villunnar í Suður-Afríku. Bæði þátt­tak­endur í raun­veru­leika­þáttunum og fram­leiðslu­lið hefur orðið fyrir barðinu á pestinni, að því er segir í um­fjöllun breska götu­blaðsins The Sun.

Tökur á níundu seríunni af raun­veru­leika­þáttunum heims­frægu fara nú fram í Suður-Afríku. Þar er á­herslan á að hver og einn sé sem glæsi­legastur enda er hópurinn í leit að ástinni.

Sam­kvæmt breska götu­blaðinu hefur Love Is­land hópurinn þó haft það frekar skítt undan­farnar tvær vikur sem upp­tökur hafa átt sér stað. Fólki hefur ýmist orðið ó­glatt eða hrein­lega fengið slæman niður­gang.

„Love Is­land lítur mjög sexí út í sjón­varpi, en á bak­við tjöldin er ein­hver pest að ganga,“ segir heimildar­maður breska götu­blaðsins í fram­leiðslu­teyminu.

„Þetta hefur verið mjög erfitt fyrir marga kepp­endur. Þau hafa ýmist hlaupið í strandar­kofann til þess að fara á trúnó eða þá á klósettið,“ segir heimildar­maðurinn sem ekki vill láta nafns síns getið.

„Sumir í fram­leiðslu­teyminu hafa einnig orðið fyrir barðinu á þessu. Þetta hefur svo sannar­lega kippt kepp­endum á jörðina.“