Svæsin magapest gengur nú um gólf innan veggja Love Island glæsivillunnar í Suður-Afríku. Bæði þátttakendur í raunveruleikaþáttunum og framleiðslulið hefur orðið fyrir barðinu á pestinni, að því er segir í umfjöllun breska götublaðsins The Sun.
Tökur á níundu seríunni af raunveruleikaþáttunum heimsfrægu fara nú fram í Suður-Afríku. Þar er áherslan á að hver og einn sé sem glæsilegastur enda er hópurinn í leit að ástinni.
Samkvæmt breska götublaðinu hefur Love Island hópurinn þó haft það frekar skítt undanfarnar tvær vikur sem upptökur hafa átt sér stað. Fólki hefur ýmist orðið óglatt eða hreinlega fengið slæman niðurgang.
„Love Island lítur mjög sexí út í sjónvarpi, en á bakvið tjöldin er einhver pest að ganga,“ segir heimildarmaður breska götublaðsins í framleiðsluteyminu.
„Þetta hefur verið mjög erfitt fyrir marga keppendur. Þau hafa ýmist hlaupið í strandarkofann til þess að fara á trúnó eða þá á klósettið,“ segir heimildarmaðurinn sem ekki vill láta nafns síns getið.
„Sumir í framleiðsluteyminu hafa einnig orðið fyrir barðinu á þessu. Þetta hefur svo sannarlega kippt keppendum á jörðina.“