Ég brotna 100% niður er þriðja ljóðabók Eydísar Blöndal, sem hefur á undanförnum árum getið sér gott orð sem ljóðskáld og aðgerðasinni. Sem skáld fetar Eydís slóðina á milli hins pólitíska og hins ljóðræna, jafnvægislist sem er vandmeðfarin, því það sem er kraftmikið og hvetjandi í pólitískri orðræðu, því hættir oft til að verða bitlaust og banalt þegar það er fært yfir í ljóðform. Þetta hefur þó heppnast nokkuð vel hjá Eydísi hingað til eins og hún hefur sýnt í fyrri bókum sínum, Tíst og bast (2015) og Án tillits (2017), þar sem hún fjallaði um þemu á borð við jafnréttisbaráttuna og kynferðisofbeldi með góðum árangri.

Í nýjustu bókinni tekur Eydís fyrir loftslagsvandann og samtvinnar baráttuna fyrir jörðinni við baráttuna við sjálfið. Titillinn er einkennandi fyrir verkið, skemmtilega tvíræður og blátt áfram, en hann vísar bæði í líffræðilegt niðurbrot manneskjunnar eftir dauðann og andlegt niðurbrot hennar er hún tekst á við hörmungar heimsins. Þá vekur titillinn einnig upp skírskotanir í niðurbrot líffræðilegra og samfélagslegra kerfa sem óumflýjanlegrar afleiðingar loftslagsbreytinga á komandi árum og áratugum.

Bókin einblínir þó fyrst og fremst á hið andlega niðurbrot og mætti jafnvel lýsa henni sem ljóðsögu um kvíða. Þetta er persónulegt verk og meira að segja svolítið innhverft. Sum ljóðanna eru raunar svo persónuleg í lýsingum á innra lífi ljóðmælanda að það getur verið áskorun fyrir lesanda að tengja við þau. Kvíðinn er sínálægur í ljóðunum en stundum svo óræður að erfitt er að henda reiður á honum. Á sumum stöðum líður ljóðmálið fyrir þetta og líkingarnar verða helst til almennar.

„Þyngslin brjótast út með ekkasogum / flæða yfir uppþornaða árfarvegi / og skella á þér“, er ágætis dæmi. Þetta er fullkomlega viðeigandi lýsing á birtingarmynd sorgar en hljómar óneitanlega eins og eitthvað sem við höfum heyrt áður.

Eilífir plastpokar

Bókin nær mestu flugi þegar ljóðmælandi veltir fyrir sér dauðanum og sínum eigin dauðleika. Heimsendir er yfirvofandi ógn í bókinni, bæði alltumlykjandi heimsendir loftslagsógnarinnar og staðbundnari heimsendir endaloka lífsins.

Höfundur sameinar þetta tvennt í sterkri mynd þegar hún lýsir plastpokunum sem hún erfði eftir föður sinn. Plastpokarnir, þessir eitt sinn hversdagslegu hlutir, eru núna orðnir eins konar táknmynd fyrir hirðuleysi mannkynsins gagnvart náttúrunni og því einkar kaldhæðnislegt að þeir skuli lifa okkur „ósnertir og eilífir“ á meðan við brotnum niður og hverfum á braut.

Martraðarkenndar lýsingar höfundar á síendurteknum kvíðahugsunum þar sem hún sér sjálfa sig príla yfir svalir íbúðar sinnar á fjórðu hæð og steypa sér niður á hellulagða stéttina, skapa einnig sterkar og óþægilegar myndir í huga lesanda og myndgera kvíðann sem einkennir verkið.

Loftslagskvíðinn skín einna sterkast í gegn í ljóðunum 2050, tveimur ljóðum sem fjalla um vangaveltur höfundar varðandi ártal sem kemur oft fyrir í umræðu um loftslags­aðgerðir. Þessi ljóð eru nokkuð sterk og hefði undirritaður verið til í að sjá meira af sambærilegu í bókinni. Hugsanlega hefði verkið getað orðið margræðara með því að fjalla um viðfangsefni loftslagsbreytinga og loftslagskvíða frá fjölbreyttari sjónarhornum.

Fegurð hversdagsleikans

Ég brotna 100% niður fjallar þó ekki bara um niðurbrot, hún fjallar líka að miklu leyti um ástina og fegurðina í hversdagsleikanum; berjamó, ísbúðir og appelsínutré í Kópavogi. Appelsínan sem prýðir kápu bókarinnar gengur í gegnum verkið eins og leiðarstef, táknmynd fyrir hringrás lífsins sem byggist upp og brotnar niður til skiptis. Þetta virkar einkar vel og situr eftir í huga lesanda án þess þó að verða yfirþyrmandi, svo minnir á sítrónuna í bók Dags Hjartarsonar, Heilaskurðaðgerðin.

Móðurástin spilar einnig sterkt hlutverk í bókinni sem talar vel inn í loftslagsþemað og mikilvægi þess að vernda jörðina til að vernda komandi kynslóðir. Bókin mun án efa snerta taugar hjá lesendum sem eiga börn, enda undirstrikar hún mikilvægi þess að hlúa að sér og sínum á sama tíma og barist er fyrir framtíð alls lífs á jörðinni. n

Niðurstaða: Áleitið verk sem fjallar um stór málefni á persónulegan máta. Dregur upp sterkar myndir af kvíða sem eru þó heldur innhverfar og almennar á köflum.

Mynd/Forlagið