Bandaríska leikkonan Nicola Peltz og Brooklyn Beckham, sonur kryddpíunnar Victoríu Beckham og fyrrverandi fótboltamannsins David Beckham, eru trúlofuð.

Brooklyn segir í færslu á Instagram að hann hafi beðið Nicolu um að giftast sér fyrir tveimur vikum.

„Ég er heppnasti maður í heimi. Ég lofa að vera besti eiginmaðurinn og besti pabbinn einn daginn,“ skrifaði hann.

Nicola birti mynd af sér og Brooklyn saman á fallegu engi og sagðist vera heppnasta kona í heimi.

„Ég get ekki beðið eftir því að verja allri ævinni minni með þér,“ skrifaði hún.

Nicola er 25 ára gömul og er þekkt fyrir að leika í kvikmyndunum The Last Airbender og Transformers: Age of Extinction og í þáttunum Bates Motel. Áður en hún lék í kvikmyndum var hún sviðsleikkona og lék meðal annars í verkinu Blackbird með leikfélaginu Manhattan Theatre Club á móti leikurunum Jeff Daniels og Alison Pill.

Faðir hennar, viðskiptamaðurinn Nelson Peltz, er milljarðamæringur og hefur komið víða að, meðal annars sem forstöðumaður Wendy's. Móðir hennar er fyrirsætan Claudia Heffner.

Brooklyn er 21 árs gamall og fyrir utan að vera þekktur fyrir að eiga fræga foreldra hefur hann reynt fyrir sér sem fyrirsæta og ljósmyndari, þar á meðal fyrir Burberry.