Einu ní­burar heimsins fagna eins árs af­mæli í dag. Faðir barnanna sagði þau vera við full­komna heilsu í sam­tali við BBC.

„Þau skríða öll. Sum eru byrjuð að sitja upp­rétt og geta jafn­vel labbað ef þau halda sér í eitt­hvað,“ sagði Abdelka­der Arby, faðir barnanna en hann er her­maður frá Malí.

Börnin eru stödd á sjúkra­húsi í Marokkó, en þau hafa verið þar undir eftir­liti frá því að þau fæddust. Móðirin, Hali­ma Cis­sé, er einnig við góða heilsu.

Arby sagði af­mælis­veisluna verða litla, þau ætluðu að fagna með hjúkrunar­fræðingum á spítalanum og ná­grönnum úr blokkinni þeirra.

Parið átti eina dóttur fyrir, hún er í dag þriggja ára. „Þetta er ekki auð­velt en þetta er frá­bært. Þetta er þreytandi stundum, en þegar þú horfir á öll börnin við full­komna heilsu, þá er okkur létt,“ sagði Arby.

Níburarnir dvöldu í nokkra mánuði í hitakassa. Þau eru við "fullkomna heilsu" í dag, samkvæmt föður barnanna.
Fréttablaðið/EPA

Sló heims­met

Aldrei hefur ein kona fætt jafn mörg börn í einu og þau lifað af. Fjöldi barnanna kom læknum í opna skjöldu en við óm­skoðanir höfðu að­eins fundist sjö börn.

Cis­se var flutt til Marokkó svo hún gæti fengið bestu mögu­legu læknis­þjónustuna. Fjöl­bura­fæðingar eru á­hættu­samar og mæðrum með fleiri en fjögur fóstur er oft ráð­lagt að fara í fóstur­eyðingu þar sem þær eru lög­legar.

Cis­se fæddi fimm stelpur og fjóra stráka, börnin vógu á milli hálfs kílós til kílós við fæðinguna, en tekið var á móti börnunum í keisara­skurði.

Tvisvar áður hefur kona borið ní­bura, fyrsta til­fellið var skráð í Ástralíu árið 1971 og það seinna í Malasíu árið 1999, en ekkert barnanna lifði lengur en í nokkra daga.