Einu níburar heimsins fagna eins árs afmæli í dag. Faðir barnanna sagði þau vera við fullkomna heilsu í samtali við BBC.
„Þau skríða öll. Sum eru byrjuð að sitja upprétt og geta jafnvel labbað ef þau halda sér í eitthvað,“ sagði Abdelkader Arby, faðir barnanna en hann er hermaður frá Malí.
Börnin eru stödd á sjúkrahúsi í Marokkó, en þau hafa verið þar undir eftirliti frá því að þau fæddust. Móðirin, Halima Cissé, er einnig við góða heilsu.
Arby sagði afmælisveisluna verða litla, þau ætluðu að fagna með hjúkrunarfræðingum á spítalanum og nágrönnum úr blokkinni þeirra.
Parið átti eina dóttur fyrir, hún er í dag þriggja ára. „Þetta er ekki auðvelt en þetta er frábært. Þetta er þreytandi stundum, en þegar þú horfir á öll börnin við fullkomna heilsu, þá er okkur létt,“ sagði Arby.

Sló heimsmet
Aldrei hefur ein kona fætt jafn mörg börn í einu og þau lifað af. Fjöldi barnanna kom læknum í opna skjöldu en við ómskoðanir höfðu aðeins fundist sjö börn.
Cisse var flutt til Marokkó svo hún gæti fengið bestu mögulegu læknisþjónustuna. Fjölburafæðingar eru áhættusamar og mæðrum með fleiri en fjögur fóstur er oft ráðlagt að fara í fóstureyðingu þar sem þær eru löglegar.
Cisse fæddi fimm stelpur og fjóra stráka, börnin vógu á milli hálfs kílós til kílós við fæðinguna, en tekið var á móti börnunum í keisaraskurði.
Tvisvar áður hefur kona borið níbura, fyrsta tilfellið var skráð í Ástralíu árið 1971 og það seinna í Malasíu árið 1999, en ekkert barnanna lifði lengur en í nokkra daga.