Vikurnar fyrir andlát sitt missti Lisa Marie Presley 22 kíló vegna neyslu ópíóíða og megrunartaflna. Talið er að hún hafi viljað vera tággrönn til að líta að eigin mati sem best út á hinum ýmsu verðlaunaafhendingum en kvikmyndin „Elvis“, sem fjallar um ævi föður hennar, goðsagnarinnar Elvis Presley, hefur slegið í gegn og verið tilnefnd til fjölda verðlauna.
Lisa Marie lést nýverið í kjölfar hjartaáfalls, aðeins 54 ára gömul. Hún var flutt á sjúkrahús eftir að hún fór í hjartastopp á heimili sínu í Calabasas í Kaliforníu. Hún var einkadóttir Elvis og Priscilla Presley.
Samkvæmt heimildarmanni TMZ hafði Lisa Marie farið í lýtaaðgerð tveimur mánuðum fyrir Golden Globe verðlaunahátíðina. Neytti hún megrunartaflna í kjölfar aðgerðarinnar og missti 22 kíló á nokkrum vikum fyrir hátíðina. Heimildarmaðurinn greindi einnig frá því að Lisa Marie hefði byrjað að neyta ópíóíða aftur, en hún hafði glímt við ópíóíðafíkn í fjölda ára.
Á hátíðinni virkaði Lisa Marie „lasburða“ og veittu áhorfendur heima í stofu því meðal annars athygli. Virtist hún óstöðug á fótunum þegar hún gekk við hlið leikarans Austin Butler, sem túlkaði einmitt föður hennar í myndinni Elvis, á síðasta ári. Butler hlaut verðlaun á hátíðinni fyrir leik sinn í myndinni.
Samkvæmt fjölmiðlum vestanhafs er dánarorsök Lisu Marie enn óljós, en búist er við niðurstöðum á næstu vikum.