Söng- og leik­konunni Oli­viu Newton-John verður veitt ríkis­út­för í Mel­bour­ne í Ástralíu. Eins og kunnugt er lét hún lífið á mánu­dag 73 ára gömul. Newton-John hafði glímt við brjósta­krabba­mein í 30 ár.

Ríkis­stjóri Victoriu­ríkis leitaði til fjöl­skyldu Newton-John sem síðar sam­þykkti að henni yrði veitt slík út­för en hún varði stærstum hluta æsku sinnar í Victoriu-ríki.

Á vef Deadline er haft eftir ríkisstjóranum, Daniel Andrews, að út­förin verði meira í líkingu við tón­leika en jarðar­för.

„Eins og ég sagði um daginn þá var Olivia Newton-John mjög sér­stak manneskja i okkar huga og að hún hafi tekið veg­ferð sína með krabba­mein og breytt því í rann­sóknir, betri með­ferðir og meiri á­herslu á vel­líðan, það er svo frá­bær arf­leifð og þess vegna held ég að við finnum öll fyrir and­láti hennar,“ sagði Andrews og að hann myndi ræða betur við fjöl­skyldu hennar um út­færslu út­fararinnar.

Fjöl­margir hafa minnst Newton-John frá því að fréttir bárust af and­láti hennar. Selma Björns­dóttir, sem lék Sandy úr Grea­se hér á Ís­landi, eins og Olivia, sagði við Frétta­blaðið í vikunni að hún hafi verið fyrsta söng­konan sem hún féll fyrir sem barn.

Newton-John var fædd í Bret­landi en fluttist til Mel­bour­ne sem barn. Fjöl­skylda hennar mun halda út­för í Banda­ríkjunum en hún var bú­sett þar stóran hluta ævi sinnar. Út­för fjöl­skyldu hennar verður haldin á bú­garði hennar í Suður-Kali­forníu.