Donald Trump, fyrr­verandi Banda­ríkja­for­seti, hefur nú sett á fót nýja vef­síðu fyrir sig og Melaniu Trump en á vef­síðunni má finna ýmsar upp­lýsingar um Trump hjónin, til að mynda tíma­bil Trumps sem for­seti.

Kynningar­hluta síðunnar má lýsa sem hálf­gerðum óði til Trumps og for­seta­tíð hans. At­hygli vekur þó að á síðunni er hvergi minnst á á­kærurnar tvær til em­bættis­missis og er það sagt að Trump hafi náð góðum tökum á CO­VID-19, þrátt fyrir að Banda­ríkin hafi komið einna verst út úr far­aldrinum.

Boðar endurkomu á samfélagsmiðlum

Lítið hefur heyrst frá fyrr­verandi for­setanum frá því að flestir sam­fé­lags­miðlar bönnuðu Trump á miðlum sínum eftir ó­eirðirnar í þing­húsinu þann 6. janúar síðast­liðinn en hann hefur áður gefið það út að hann komi til með að stofna sinn eigin sam­fé­lags­miðil á næstu mánuðum.

„Þetta er eitt­hvað sem ég held að verði það heitasta á sam­fé­lags­miðlum,“ sagði Jason Miller í þættinum Media­Buzz fyrr í mánuðinum um sam­fé­lags­miðil Trumps. „Allir vilja hann og hann mun trekkja að fleiri milljón manns, tugi milljóna, að sínum miðli,“ sagði Miller enn fremur.

Skjóta fast á Trump

Fjöl­margir net­verjar hafa skemmt sér í dag yfir fréttunum af nýjustu vef­síðu Trumps og nýta enn fremur tæki­færið til að velta vöngum yfir reglum á væntan­legum sam­fé­lags­miðli hans undir myllu­merkinu „Trumps Social Plat­form Ru­les.“

Meðal annars er vísað til stuðnings Trumps við öfga­hópa, fjár­hags- og skatt­vanda­mála Trumps, auk þess sem bent er á tilhneigingu Trumps til að fara frjálslega með staðreyndir. Þá er einnig skotið er á stuðningsmenn Trumps og aðra Repúblikana.

Nokkrar slíkar færslur má finna hér fyrir neðan.