Stjörnuhjúin Ryan Reynolds og Blake Lively birtu sömu mynd á Instagram reikningum sínum áður en þau sendu inn atkvæði sín í forsetakosningum Bandaríkjanna í gegnum póstinn.

Það væri svo sem ekki í frásögur færandi nema fyrir það að Blake Lively breytti myndinni í sinni færslu á sprenghlægilegan hátt. Á myndinni sem Ryan Reynolds birti stendur eiginkona hans á táberginu en á myndinni sem Blake birti var búið að teikna háhælaða skó við fætur leikkonunnar, að því er virðist með Paint-forritinu.

Eftir athugasemdirnar ákvað Blake að teikna aðra skó sem hún birti í „story“ á Instagram.
Mynd: Skjáskot

Netverjar furða sig á þessari litlu breytingu og keppast nú við að birta fyndnar athugasemdir við myndina.

„Geturðu sent mér upplýsingar um þessa klikkuðu hæla?“ skrifar einn fylgjandi.

„TEIKNAÐIR ÞÚ ÞESSA HÆLA OG HAFÐIR ÞÚ FYRIR ÞVÍ AÐ TEIKNA RAUÐAN BOTN Á ÞÁ ÉG ELSKA ÞIG“ skrifar annar fylgjandi og sparar ekki broskallanna.

Hér fyrir neðan má sjá færslurnar tvær.