Ýmsar síður Google, til að mynda YouTube, Gmail, Google Drive, Google Maps, og Google Cloud, lágu niðri í um það bil hálftíma í dag en notendur víða um heim greindu frá því að þau ættu í vandræðum með að komast inn á síðurnar.

Svo virðist sem síðurnar séu aftur komnar í lag, að minnsta kosti hér á landi, en síðurnar eru enn lengi að hlaðast. Sjaldgæft er að síður Google liggi niðri og skaut það mörgum skelk í bringu þegar vandamálið kom upp.

Margir netverjar fóru á samfélagsmiðla til að vekja athygli á vandamálinu en fjölmargir eru með ýmislegt vistað á síðunum. Þrátt fyrir að mögulega hafi gögn verið í hættu nýtti fólk tækifærið til að gera grín að ástandinu.

Óttast gagnaleka

„Google niðri. Voru allir búnir að vista líf sitt?“ sagði til að mynda Kappmálsmaðurinn Bragi Valdimar og bætti við að krakkarnir hjá Google hafi mögulega ákveðið að hafa netið lokað í hádeginu og um helgar.

Þá voru aðrir sem vísuðu til þess að Facebook Messenger hafi legið niðri í síðustu viku og var þar óttast að gagnaleki hafi orðið. Enn aðrir héldu því fram að dómsdagur væri kominn og sögðu að hrunið kæmi þeim ekki á óvart miðað við hvernig árið 2020 hefur gengið.

Nokkrar færslur frá netverjum hér á landi, sem og erlendis, má finna hér fyrir neðan.