Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra hefur fengið hrós úr fjölmörgum áttum fyrir frammistöðu hennar í magnþrungnu viðtali í Kastljósþætti kvöldsins á RÚV. Lilja fór þar yfir hvað hefði gengið á hjá henni undanfarna daga og hvernig henni hefði liðið eftir ósmekkleg ummæli þriggja þingmanna Miðflokksins, þar af tveggja fyrrum flokksbræðra hennar.

Sjá einnig: Um­mælin „al­gjört of­beldi“ og ó­fyrir­gefan­leg

Í stuttu máli sagði hún þá vera ofbeldismenn sem ættu ekkert með dagskrárvaldið sem felst í þingsetu að hafa. Hún hygðist standa keik og sinna sínum skyldum og störfum í þinginu og ríkisstjórn áfram.

Ljóst er að margir fylgdust með Lilju fara skýrt og skilmerkilega yfir atburði undanfarinna daga þar sem hún lýsti vanlíðaninni sem fylgdi í kjölfar ummæla þingmannnanna. Netverjar hafa keppst um að ausa hana lofi í kvöld auk þingmanna, núverandi og fyrrverandi.