Netverjar hafa fagnað afhjúpun „Marvins“ sem tók upp samtal þingmannanna sex á Klaustur Bar þann 20. nóvember síðastliðinn. Stundin svipti hulunni af því hver dularfulli upptökumaðurinn er. En hingað til hefur upptökumaðurinn verið kallaður Marvin. 

Marvin heitir í raun Bára Halldórsdóttir, er 42 ára gömul kona sem er bæði samkynhneigð og er öryrki.

Sjá einnig: „Ég er þessi Mar­vin“

Bára segir í viðtalinu við Stundina að hana hafi blöskrað orðbragð þingmannanna og hafi því ákveðið að taka samræðurnar upp og síðar að senda fjölmiðlum upptökuna.

Á skilið fálkaorðu og er manneskja ársins

Fjölmargir lofsama Báru á samfélagsmiðlum í morgun og hafa einhverjar lagt til að hún verði tilnefnd kona ársins og að hún fái fálkaorðuna.

Snærós Sindradóttir starfsmaður hjá Rúv segir: „Maður ársins er fötluð hinsegin kona sem lætur ekki bjóða sér yfirgang frekjukalla lengur. Framtíðin er kona.“

Aðrir vilja bæta við titil manneskju ársins og veita Báru fálkaorðuna.

Sólveig Anna, formaður Eflingar segir „Ég viðurkenni að ég er pínku klökk. Stundum er veruleikinn svo ótrúlegur, merkilegur og fallegur.“

Valgerður Árnadóttir, verkefnastýra hjá Eflingu tekur undir orð Sólveigar og segir einnig að hún hafi klökknað við lesturinn

Kristín Helga, alþjóðafræðingur í Árórum segir að það sé „næstum því ljóðrænt að sú sem afhjúpaði mannvonsku sexmenninganna sé fötluð, hinsegin kona. Holdgervingur þess sem hatrið beindist að“

Jón Gnarr segir að Bára hafi hitt naglann á höfuðið þegar hún miðar við að ef Davíð Oddsson sé ósáttur þá sé hún að gera eitthvað rétt. 

Eiríkur Kristjánsson segir að orðatiltækið „Borð fyrir Báru“ öðlist aldeilis nýja merkingu í dag. 

Ingimar Karl Helgason sem starfar sem samskiptastjóri Öryrkjabandalags Íslands segir að Bára sé hetja.

Ragnheiður segir að Bára sé kona árins og eigi skilið fálkaorðuna. 

Atli Þór Fanndal blaðamaður segir Báru vera æði og þakkar henni fyrir líkt og aðrir

Rannveig Tenchi þakkar henni fyrir að „ýta á upptöku“.

Eins og áður hefur fram komið hafa upptökurnar vakið sterk viðbrögð í samfélaginu. Tveir þingmenn Miðflokksins eru farnir í leyfi, tveir voru reknir úr Flokki fólksins og málið fór fyrir bæði forsætis- og siðanefnd Alþingis. 

Þá hefur fjöldi fólks kallað eftir því að öll segi þingmennirnir af sér tafarlaust. Það gerði fólk meðal annars með því að mótmæla á aldarafmæli fullveldis Íslendinga síðastliðin laugardag.