Það er ó­hætt að segja að net­heimar nötri nú vegna þess sem reynst hafa um­deildar breytingar á jóla­jógúrti frá Mjólkur­sam­sölunni. Breytingarnar eru ræddar í þaula inni á Face­book hópnum Beautytips. Sunna Gunnars Marteinsdóttir, samskiptastjóri MS segir málið í skoðun í samtali við Fréttablaðið. Von sé á tilkynningu vegna málsins.

„Er það bara ég eða eru fleiri sem eru sárir yfir því að það er búið að breyta skrautinu á jóla­jógúrtinu frá MS,“ skrifar Margrét Sæunn Péturs­dóttir inni á Face­book hópnum. Þar birtir hún mynd af nýrri jóla­jógúrt, við hlið eldri. Gerðar hafa verið breytingar á jólaskrautsnammi sem fylgir í plastboxi með jógúrtinu.

Færslan fær mikil við­brögð en 84 manns bregðast við færslunni. Flestir sem skrifa um­mæli við færsluna lýsa yfir mikilli van­þóknun á breytingunum og ljóst að ekki er á­nægja með þær. „Ojjj,“ skrifar ein. „Brjáluð,“ skrifar önnur. Ein gengur svo langt að full­yrða að jólin séu ónýt.

„Þetta er ekkert sama jógúrtið, því­líkur brandari!“ skrifar Alexandra Sif Niku­lás­dóttir. Hún lýsir yfir mikilli furðu með nýja jógúrtið, sem virðist bragðast öðru­vísi en hið gamla ef marka má orð hennar.

„Á þetta að vera eitt­hvað hollara?! Alltaf verið að röfla að það sé svo mikill sykur í þessu hver einustu jól útaf börnunum. Það má ekki neitt. Þetta er einu sinni á ári og hægt að hafa þetta sem spari fyrir börnin,“ skrifar Alexandra. Hún segist hafa elskað jógúrtið frá barn­æsku og því sé um mikil von­brigði að ræða.

Þá lætur Þóra Birgis­dóttir hópinn vita að hún sé nú þegar búin að senda inn kvörtun til Mjólkur­sam­sölunnar vegna málsins. Hún fær mikil og góð við­brögð en sau­tján manns lýsa yfir á­nægju vegna þess. „Legg til að allir sendi kvörtun!“ skrifar Sæ­dís Alma og ljóst að sam­hugurinn er mikill.

Mynd/Skjáskot
Mynd/Skjáskot
Mynd/Skjáskot
Mynd/Skjáskot