Roma, kvikmynd Alfonso Cuarón, hlaut í nótt Golden Globe-verðlaunin sem besta erlenda myndin og leikstjórinn hampaði einnig gullhnetti fyrir leikstjórn. Netflix á sýningarréttinn á myndinni sem til stóð að sýna í völdum kvikmyndahúsum þangað til hún fór í umferð á efnisveitunni.

Aðsóknin á Roma í Bíó Paradís hefur verið það góð að Netflix hefur enn og aftur framlengt sýningarrétt kvikmyndahússins sem er eitt fárra slíkra í heiminum sem enn sýna myndina.

Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri kvikmyndahússins, er að vonum hæstánægð bæði með að fá að sýna Roma á breiðtjaldi til 17. janúar og velgengni myndarinnar á Golden Globe sem  hún telur renna enn styrkari stoðum undir þá kenningu sína að Roma muni stela senunni á Óskarnum eftir nokkrar vikur.

Netflix kveikir á perunni

„Netflix hefur hingað til dregið lappirnar með bíósýningar á Netflix-verkefnum og við vorum satt að segja ekkert rosalega spennt fyrir því að vera sýna myndir frá þeim. Vegna þess að þeir voru bæði áhugalausir um að skila okkur efninu og að taka einhvern þátt í þessu með okkur. Það var bara eins og þetta skipti þá engu mái,“ segir Hrönn í samtali við Fréttablaðið.

Með Roma, sem Netflix veðjaði réttilega á til þess að styrkja stöðu sína í kvikmyndaheiminum, hefur þetta heldur betur breyst, eins og skyndilegur velvilji í garð lítils kvikmyndahúss á Íslandi ber með sér.

„Þessar góðu viðtökur, miðað við stærð landsins, mikil miðasala og stemningin sem myndaðist í kringum myndina hefur orðið til þess að þeir hafa alveg lifnað við og eru núna ljúfir sem lömb og vilja allt fyrir okkur gera,“ segir Hrönn sem er með þá kenningu að Rome sé mögulega að breyta viðhorfi Netflix-fólksins til bíósýninga.

„Ég vil meinar að þau líti bíógluggann ekki jafn neikvæðum augum og áður. Stemningin hjá þeim fyrir fyrstu myndunum sem fengu takmarkaðan tíma í bíó var mjög dauf og þeir virtust vera að gera þetta bara til þess að geta sagst hafa gert það. Ekki vegna þess að þeir vildu það.“

Hrönn segir að Bíó Paradís hafi í haust byrjað á því að taka stöku  Netflix-myndir til sýninga en „efninu var skilað seint og illa. Þeir reyndu að klípa eins mikið af bíótímanum og hægt var og vildu helst ekki neina sérstaka umfjöllun eða auglýsingar.“

Netflix-hrollurinn

„Við í bíóbransanum höfum auðvitað haft áhyggjur af þessu og þá sérstaklega að stór hluti bíómynda fái bara ekkert pláss í bíó eftir því sem fleiri listrænir og stórir leikstjórar í „indie“- senunni fara að gera Netflix-myndir,“ segir Hrönn og bendir á að hjá Netflix virðist fólk vera að átta sig á mætti þessa eldgamla fyrirbæris, kvikmyndahúsanna. „Þetta náði ákveðnu hámarki þegar Cannes bannaði Netflix-myndir á síðustu hátíð. Allir flúðu yfir á Feneyjarhátíðina og margir, frá Cohen bræðrum til Cuarón, fóru að gera Netflix-myndir.“

„Þetta er bara alveg eins og þegar fólk hélt að sjónvarpið og síðar myndbandstækin myndu gera út af við bíóin en gerði sér svo grein fyrir að bíósýningarnar eru í raun risastór auglýsing fyrir hina dreifingarkostina. Efnisveituna í þessu tilfelli. Svona var þetta með VHS, DVD og loksins núna er Netflix að átta sig á því að þetta margborgar sig fyrir þá og hversu velgengni myndanna þeirra í bíó eru gríðarleg auglýsing.“

Hrönn hefur staðið föst á því, frá því hún sá Roma, að myndin muni ekki aðeins hljóta Óskarsverðlaunin sem besta erlenda myndin, heldur einfaldlega einnig sem besta mynd ársins. Gullhnettirnir tveir í nótt hafa styrkt hana enn frekar í þeirri trú.

„Myndin mun vinna Óskarinn og Cold War verður í öðru sæti,“ segir hún og hvetur fólk til þess að drífa sig að sjá Roma í bíó á næstu tíu dögum vegna þess að þótt „Netflix éti úr lófanum á okkur núna þá get ég ekki lofað fleiri sýningum.“

Hún segist þó vona það besta og að aukin aðsókn, sem reikna má með eftir fréttir næturinnar, geti hjálpað mikið. „En hvað sem því öllu líður get ég lofað því að við verðum ekki með hana þegar Óskarverðlaunin verða veitt í lok febrúar.“