Leikkonan Lily Collins, dóttir tónlistarmannsins Phil Collins, fer með aðalhlutverkið í Emily in Paris og túlkar þar unga konu frá Chicago sem flyst til Parísar með takmarkaða þekkingu á tungumáli og menningu Frakka. Hún kærir sig heldur ekki um að læra frönsku, og ranghvolfir augunum yfir landi og þjóð. París er í þáttunum böðuð töfraljóma og sögupersónur eru áferðarfallegar.

Vinsælt „gremjugláp“

Líkt og rómantíska sjónvarpsþáttaformið segir til um, þá eru tíð fataskipti og ósamræmi í tekjum og húsakosti meðal þess sem fyrir augu ber. Auk þess hafa gagnrýnendur mikið talað um klisjukennda staðalmynd af franskri menningu, svo mjög að þættirnir hafa öðlast sess sem „hate-watch,“ sem mætti kalla „gremjugláp.“

Hér má vitna í Rebeccu Nicholson, gagnrýnanda The Guardian, sem gaf fyrstu þáttaröðinni eina stjörnu og hóf pistilinn sinn á spurningu svohljóðandi: „hvað hafa Frakkar gert til þess að verðskulda Emily in Paris?“ Hún sagði að þættirnir væru afdráttarlaus líking fyrir bandaríska heimsvaldastefnu, vel heppnuð sem slík, en sem afþreying fyrir streymiskynslóðina ætti hún heima í ruslinu. Þessi skoðun, á þáttunum sem rusli, var nokkuð ráðandi meðal gagnrýnenda um allan heim, en samkvæmt tímariti Rolling Stone var skemmtilegra að lesa gagnrýnendur tæta efnið í sig, en að horfa á sjálfa þættina.

Tilnefnd til fjölda verðlauna

Áhorfendur komu þáttunum til varnar, sem endurspeglaðist á samfélagsmiðlum og í áhorfstölum. Heitar umræður um þættina áttu sér stað á svokallaða „íslenska-Twitter,“ og á meðan sumir kölluðu þættina rusl, vildu aðrir áhorfendur ólmir verja réttinn til þess að flýja erfiðan raunveruleika í heimsfaraldri.

Áhorfstölur og viðbrögð kvikmyndaiðnaðarins voru líka á öndverðum meiði við gagnrýni. Fyrsta þáttaröðin sópaði að sér tilnefningum. Art Directos Guild Award tilnefndu framleiðsluna, búningahönnuðir tilnefndu búningana, Samtök gagnrýnenda tilnefndu aukaleikara og Golden Globe verðlaunin tilnefndu þættina sem bestu gamanþætti og aðalleikkonu þáttanna, Lily Collins, fyrir besta leik. Emmy verðlaunin létu ekki sitt eftir liggja og MTV-verðlaunin ekki heldur.

Þrátt fyrir fjölda tilnefninga hlutu Emily in Paris engin verðlaun, en skrifuðu sig sannarlega inn á spjöld sjónvarpssögunnar. Næsta þáttaröð kemur rétt fyrir jólin og þá munu gagnrýnendur mögulega spyrja sig hvað Frakkar gerðu til að eiga aðra þáttaröð af Emily in Paris, skilið.