Tökur á fyrstu ís­lensku Net­flix þátta­röðinni, Kötlu, eru hafnar en þættirnir eru úr smiðju Baltasars Kormáks og fram­leiddir af RVK Stu­dios.

Í til­kynningu sem send var fjöl­miðlum í morgun kemur fram hvaða leikarar fara með hlut­verk í þáttunum en meðal þeirra eru Guð­rún Ýr Ey­fjörð (GDRN), Íris Tanja Flygenring, Ingvar Sigurðs­son, Þor­steinn Bachmann, Sól­veig Arnars­dóttir, Guð­rún Gísla­dóttir, Baltasar Breki Samper, Björn Thors og Svíarnir Aliette Op­heim og Valter Skarsgård.

Þættirnir gerast einu ári eftir gos í Kötlu og segir frá lífi bæjar­búa í frið­sæla smá­bænum Vík. Lífið hefur breyst og neyðast þeir til að yfir­gefa bæinn því jökullinn ná­lægt eld­fjallinu byrjar að bráðna.

Þeir ör­fáu í­búar sem eftir eru ná að halda sam­fé­laginu gangandi og þrátt fyrir frá­bæra stað­setninguna er bærinn nánast orðinn að drauga­bæ. Dular­fullir hlutir sem frusu djúpt inn í jökulinn fyrir löngu síðan koma nú í ljós og hafa ó­fyrir­séðar af­leiðingar.

Í til­kynningunni segir Guð­rún Ýr að frá­bært sé að vinna með Baltasar því hægt sé að treysta leik­stjórn hans vel.

„Það er undan­tekningar­laust hægt að stóla á að hann gefist ekki upp fyrr en senan er orðin full­komin. Hann er ó­trú­lega góður í því að gefa leið­beiningar sem hjálpa manni að gera betur og gefur leikurum mikið frelsi og traust til þess að túlka og tjá karakterana á sinn hátt. Hann er opinn fyrir nýjum hug­myndum og vanga­veltum alls staðar frá en veit á sama tíma upp á hár hvernig hann vill hafa hlutina og er alltaf til­búinn að grípa boltann þegar það á við og leiða mann á­fram í rétta átt,“ segir hún.

Katla er sem fyrr segir sköpunar­verk verð­launa­leik­stjórans Baltasars Kormáks sem þekktur er fyrir vinnu sína víða um heim.

„Eftir fjöl­margar leikaraprufur settum við saman frá­bæran leik­hóp fyrir Kötlu og það er valinn maður í hverju rúmi; í bland nokkrir af bestu og reyndustu leikurum þjóðarinnar og síðan frá­bærir ungir leikarar, sem koma fram í stórum hlut­verkum. Við erum enn í tökum og sam­starfið við leik­hópinn allan er mjög gefandi og skemmti­legt,“ segir Baltasar í til­kynningunni.

Leik­hópinn skipa einnig Haraldur Ari Stefáns­son, Birgitta Birgis­dóttir, Helga Braga Jóns­dóttir, Björn Ingi Hilmars­son, Al­dís Amah Hamilton og síðast en ekki síst hinn 9 ára gamli Hlynur Atli Harðar­son.

Aðrir hand­rits­höfundar en Baltasar að átta þátta seríunni eru þau Sigur­jón Kjartans­son, Davíð Már Stefáns­son og Lilja Sigurðar­dóttir, en fram­leiðsla er í höndum RVK Stu­dios. Katla verður sýnd á Net­flix um allan heim og verður frum­sýningar­dagur kynntur síðar.